sunscreen-woo-750x350

Þegar hlýna tekur í veðri og sólardagarnir verða fleiri heyrast iðulega raddir þeirra sem telja sólarvörn vera skaðlega. Er eitthvað til í þeim staðhæfingum? Vísindafréttasíðan IFL Science tók saman nokkur atriði varðandi notkun sólarvarnar sem gott er að hafa í huga.

Skipta má sólarvörnum í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða sólarvarnir sem innihalda steinefni, til dæmis sink og títantvíoxíð. Þessar sólarvarnir virka þannig að þær tvístra geislum sólarinnar og koma þannig í veg fyrir að þær valdi skaða á húðinni. Aðrar sólarvarnir, sem eru yfirleitt þynnri, innihalda efni líkt og oxybenzone.

Þeir sem tala á móti sólarvörnum telja meðal annars að sink og títantvíoxíð frásogist í gegnum húðina inn í blóðrásina og losi þar sindurefni sem skaða húðina. Vissulega hafa rannsóknir á rottum sýnt að sink og títandíoxíð hafi skaðleg áhrif. Mikilvægt er að benda á að í þeim rannsóknum var efnunum sprautað í tilraunadýrin en ekki borið á húð þeirra. Það verður að teljast ólíklegt að fólk taki upp á því að sprauta sólarvörn í sig en rannsóknir sem hafa skoðað hvort efnin berist í gegnum húð hafa sýnt að magn efnanna sem frásogast er svo lítið að það er vart mælanlegt.

Önnur ástæða sem oft er nefnd er að notkun sólarvarnar auki líkurnar á húðkrabbameini. Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem nota sólarvörn séu líklegri en aðrir til að fá húðkrabbamein. Mikilvægt er þó að benda á að þessar auknu líkur tengjast sólarvörninni ekki. Sérfræðingar telja að ástæðuna megi fremur rekja til rangrar notkunar sólarvarnar. Þegar sólarvörn er notuð skapast oft falskt öryggi og fólk er líklegra til að eyða meiri tíma í sólinni en það myndi annars gera. Einnig er ólíklegra að fólk beri á sig reglulega ef sólarvörn með miklum styrk er notuð.

Það er því ráðlegt að fara að fyrirmælum sérfræðinga þegar kemur að notkun sólarvarnar. Æskilegt er að bera á húðina sólarvörn með minnst SPF 15 en hún stöðvar um 93% af UVB geislum sólar. Fyrir þá sem eiga á hættu að brenna er mælt með því að nota sólarvörn í hærri styrk. Þar sem að engin sólarvörn ver húðina 100% fyrir geislum sólar er mikilvægt að bera á sig á tveggja til þriggja tíma fresti og oftar fyrir þá sem synda eða svitna mikið.