Cheating-in-a-relationship

Ert þú ein/n af þeim sem veltir tryggð maka þíns fyrir þér? Væri ekki gott að láta verðandi maka undirgangast einhvers konar próf áður en haldið er útí stórar skuldbindingar til að vita hvort búast megi við einhverjum tryggðarbrotum? Nú, þökk sé vísindunum, gæti slíkt orðið möguleiki.

Trúnaðarbrot á borð við framhjáhald er merkilegt fyrirbæri, ekki síst frá líffræðilegu og þróunarfræðilegu sjónarhorni. Þróunarfræðilega mætti segja að hagur karla liggi í því að dreifa genunum sínum á sem flesta. Fyrir konur hins vegar er engin augljós skýring fyrir því að stunda lauslæti þar sem þær geta einungis eignast takmarkað magn af afkvæmum og ávinningur þeirra, þróunarfræðilega, ekki jafn augljós. Kvendýr hafa yfirleitt meira fyrir því að velja sér gæða einstaklinga til að makast með, til að tryggja að sín gen komist áfram í pari með góðum genum.

Í rannsókn sem birtist í Evolution and Human Behavior reyndi hópur vísindamanna að svara því hvort einhver rökrétt þróunarfræðileg ástæða lægi að baki því að sumir halda framhjá.

Rannsóknin var unnin á finnskum tvíburum, annars vegar eineggja og hins vegar tvíeggja, sem allir voru í langtímasambandi. Þegar þátttakendur svöruðu spurningum um hvort þau hefðu verið maka sínum ótrú, kom í ljós að erfðir hafa mikið að segja um ótryggð í samböndum. Fylgnin milli eineggja tvíbura var sterkari en milli tvíeggja sem bendir það til þess að það er ekki eingöngu umhverfið sem hefur áhrif á hegðun fólks í þessum málum heldur einnig genin. Reyndar var hægt að tengja framhjáhald við erfðaþætti í 40% hjá konum og 63% tilfella hjá körlum.

Til að skoða hvaða gen hafði mest áhrif á tryggð fólks við maka sína kom í ljós að ákveðin tilhneiging til framhjáhalds fylgir tilbrigði af vasopressin viðtaka. Vasopressin er hormón sem hefur meðal annars áhrif á makaval og myndun tengsla. Áhugavert verður að teljast að breytileiki í vasopressin viðtakanum sýndi einungis fylgni við framhjáhald kvenna, en tilviljanakenndur breytileiki hjá körlum hafði ekki áhrif á hvort þeir voru trúir eða ótrúir. Það er því einhver annar, óþekktur erfðafræðilegur bakgrunnur hjá körlum sem tengist frekar því að þeir halda framhjá.

Þannig að ef maki þinn er kona er mögulegt að athuga hvort hún sé ein af þeim u.þ.b. 3% sem hafa erfðafræðilega tilhneigingu til að halda framhjá. Ef maki þinn er hins vegar karl þá er erfiðara að segja til um hvort erfðaefni hans geri hann útsettari fyrir því að vera ótrúr eða ekki. En þó hvati ótryggðar liggi að einhverju leiti í líffræðilegum ástæðum þá er það samt sem áður frekar léleg afsökun til að hylma yfir eigin svik.