Mynd: BBC
Mynd: BBC

Eins og Hvatinn hefur greint frá síðastliðnar vikur telja vísindamenn ástæðu til að tengja saman zika-veirusýkingar og aukna tíðni fæðingagalla sem felur í sér svokölluð dverghöfuð, sjá Erfðaefni zika veirunnar greint í heila fósturs með dverhöfuð og Hvað er zika veiran.

Þó Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hafi nú þegar gefið út viðvörun, þar sem ófrískum konum er ráðlagt að forðast svæði þar sem veiran hefur greinst, hefur enn ekki tekist að sýna fram á hvernig veiran hefur þessi áhrif. Vísindamenn vinna því hörðum höndum að því að skilgreina virkni veirunnar í móðurkviði til að útskýra hvernig hún getur valdið þessum skaða auk þess sem bóluefnaframleiðsla er sett í forgang.

Nú hefur hópur lækna frá Argentínu sent frá sér skýrslu sem gefur til kynna að aukna tíðni dverghöfða megi ekki rekja beint til zika veirunnar heldur til skordýraeiturs sem notað er moskítóflugunni sem ber veiruna.

Skordýraeitrið heitir pyriproxyfen og er efnið sett meðal annars í drykkjarvatn þar sem tíðni dverghöfða hefur aukist umtalsvert uppá síðkastið, en slík meðferð á drykkjarvatni hófst síðla árs 2014. Höfundar skýrslunnar telja líklegt að skordýraeitrið sé hinn raunverulegi valdur fæðingagallans og telja þá meðal annars, máli sínu til stuðnings að tíðni dverghöfða hefur ekki aukist i Argentínu, þar sem zika veiran er einnig mjög algeng. Pyriproxyfen er hins vegar ekki notað í Argentínu. Að auki segja höfundar skýrslunnar að þar sem ekki er 100% fylgni milli zika veiru sýkingar og fæðingagallans sé líklegt að ekki sé við veiruna að sakast.

Til að bregðast við þessari skýrslu hafa yfirvöld í Brasilíu stöðvað notkun pyriproxyfen meðan enn er verið að rannsaka málið. Eitrið virkar eins og skordýrahormón og mjög ólíklegt verður að teljast að það hafi áhrif á menn, hvort sem er fullorðna einstaklinga eða fóstur, þar sem við höfum enga eiginleika til að nýta slík hormón.

Sú staðreynd að notkun pyriproxyfen í vatni sýni fylgni við aukna tíðni dverghöfða núllar þó ekki út þær áhyggjur sem heilbrigðisyfirvöld hafa af zika veirunni. Veiran er enn talinn líklegasti sökudólgurinn í því máli. Því til stuðnings má nefna að erfðaefni veirunnar hefur fundist í heila andvana fæddra ungbarna auk þess sem eitrið hefur verið prófað og rannsakað í bak og fyrir. Þess ber að geta að pyriproxyfen er einnig notað sem skordýraeitur víða um Evrópu og í Bandaríkjunum en þar hefur tíðni dverghöfða ekki aukist.

Svo hverju á að trúa? Eins og staðan er í dag beinast spjótin enn að zika veirunni, en öflun frekari þekkingar stendur enn yfir. Það er alls ekki útilokað að hér sé um samverkandi þætti að ræða, að eitrið geti á einhvern hátt haft áhrif á veiruna eða þá hýsilinn sem leiðir til þess að veiran hefur þessi áhrif á fóstur og gæti það skýrt hvers vegna faraldurinn er stærri í Brasilíu í samanburði við t.d. Argentínu. Meðan rannsóknir standa enn yfir munum við ekki geta svarað þeirri spurningu en líklegt er að vísindamenn leggi jafnmikið kapp í að skilgreina veiruna sem og hugsanlega áhrifaþætti.