Mynd: ScienceNordic
Mynd: ScienceNordic

Hvítblæði er krabbamein sem kemur fram í offjölgun hvítra blóðkorna. Hvítu blóðkornin eru hluti af ónæmiskerfinu og teja nokkrar frumugerðir sem flestar geta tekið uppá því að fjölga sér of mikið og mynda þannig hvítblæði.

Hvítu blóðkornin eiga uppruna sinn í beinmerg, þar byrja þær sem vefjasérhæfðarstofnfrumur og þroskast yfir í þær frumugerðir sem þeim er ætlað að vera og starfa sem í líkamanum.

Nýjustu meðferðir við hvítblæði felast í því að erfðabreyta frumum úr blóðmyndandi vef sjúklings þannig að þegar þeim er komið aftur fyrir í sjúklingnum ráðast þær á óeðlilegar og krabbameinsmyndandi frumur blóðsins. Þegar þessari aðferð er beitt eru frumurnar látnar virkja viðtaka við mótefni sem er í miklu magni á krabbameinsfrumunum.

Þessi meðferð hefur breytt miklu um batahorfur hvítblæðisjúklinga en í sumum tilfellum er ekki hægt að notast við frumur úr sjúklingnum sjálfum. Ástæður þess geta t.d. verið að sjúklingurinn hefur undirgengist mikla krabbameinsmeðferð eða að sjúklingurinn er barn sem hefur aðeins takmarkað af hvítum blóðkornum í líkamanum. Við slíkar aðstæður er yfirleitt notast við gamalgróna meðferð sem felst í því að drepa blóðmyndandi vef sjúklingsins að hluta og í staðinn kemur nýr vefur sem yfirleitt er fenginn úr fjölskyldurmeðlim.

Nýlega birt grein í Science þar sem tveimur tilfellum hvítblæða í börnum er líst. Í báðum tilfellum fengu börnin meðferð með erfðabreyttum frumum, en það sem var ólíkt fyrri meðferðum með þessari aðferð var að nú var notast við gjafafrumur. Þegar gjafafrumur eru notaðar skapast hætta á því að sjúklingurinn hafni frumunum, þar sem þær eru ekki úr líkama hans/hennar.

Í þessum tilteknu tilfellum tókst sem betur fer að lækna börnin af hvítblæðinu. Annað barnanna sýndi reyndar sterkt ónæmissvar við gjafafrumunum, en nú 12 og 18 mánuðum seinna lifa börnin góðu, hvítblæðisfríu lífi. Eftirfylgni er að sjálfsögðu ekki lokið, en þessar niðurstöður lofa góðu varðandi framhaldið.

Þetta er í fyrsta skiptið sem þessum tveimur aðferðum er blandað saman, þ.e. að notast við gjafafrumur og erfðabreyttar frumur. Það er því til mikils að vinna ef áfram heldur sem horfir og hægt verður að nýta það besta úr báðum meðferðum.