Mynd: BBC
Mynd: BBC

Ekki hefur enn tekist að sýna fram á að tengsl á milli zika veirunnar og fjölgunar á tilfellum fæðinga barna með dverghöfuð eigi við rök að styðjast. Sífellt bætast þó við upplsýsingar sem benda til þess og hafa vísindamenn nú fundið erfðaefni zika veirunnar í heild sinni í heila fósturs með dverghöfuð. Um var að ræða fóstur sem hafði verið eytt og fannst erfðaefni veirunnar eingöngu í heila þess sem bendir til þess að veira sýki helst heilann.

Zika veira heldur áfram að breiðast hratt út en að því er kemur fram á vefsíðu IFL Science hafa 35 tilfelli verið stafest í Bandaríkjunum, sem flest tengjast ferðalögum. Að auki var fyrsta tilfellið greint í barnshafandi konu í Ástralíu í vikunni. Það er þó harla ólíklegt er að veiran berist á milli manna í þessum löndum enda smitast veiran með moskítóflugum af tegundinni Aedes aegypti sem er aðeins á finna á ákveðnum svæðum.

Enn er ekki til nein bólusetning gegn zika veirunni en unnið er að því hörðum höndum að finna lausn á þeim vanda. Eitt virtasta vísindarit heims, Nature, hefur brugðist við þessari þörf með því að gefa út tilkynningu þess efnis að allar greinar sem varða rannsóknir á zika veirunni verði gerðar aðgengilegar öllum.