Mynd: Science
Mynd: Science

Flókið hár og vandræðin sem fylgja því hefur yfirleitt verið bundið við annað kynið þar sem strákar safna oft ekki hári í miklum mæli. Það hefur þó að öllum líkindum breyst töluvert síðastliðin ár eftir að það sem kalla má skógarhöggsmannatíska kom til. Einhverjir kunna að kannast við flóka sem eru svo stórir og erfiðir að til að leysa þá þarf ekki einungis heilmikla þolinmæði og líkamlega krafta heldur einnig óheyrilega langan tíma. Þessi fréttastubbur fjallar einmitt um slíka flóka.

Að vera með óeðlilega flókið hár er ekki talið mjög algengt heilkenni, en eins og gefur að skilja eru ekki til nákvæmar tölur yfir það þar sem fólk með flókið hár leggur ekki í vana sinn að leita sérfræðiaðstoðar við flókanum. En nægar upplýsingar liggja þó fyrir til að vita að óeðlilega flókið hár liggur í ættum en það gefur vísbendingar um að erfðafræði liggi að baki þessu skrítna heilkenni.

Rannsóknarhópur við Universität Bonn komst í tæri við bresk systkin sem bæði þjáðust af heilkenninu. Til að skilgreina hvaða erfðaþættir lægju að baki fékk vísindahópurinn leyfi til að raðgreina erfðamengi barnanna og leita að genum sem tengjast hármyndun og geymdu öðruvísi basaröð en í fólki sem ekki er með óeðlilega flókið hár.

Í ljós kom að þrjú gen tengjast heilkenninu. Þessi gen kallast PADI3, TGM3 og TCHH. Þau skrá fyrir prótínum sem saman mynda byggingu og lögun hársins. TCHH prótínin eru tengd saman með keratíni í nokkurs konar prótínlengjur. PADI3 er ensím sem breytir lögun TCHH svo keratíntengingarnar geti átt sér stað og TGM3, sem einnig er ensím, sér til þess að tengingar TCHH verði. Þegar eitthvert þessara prótína virkar ekki sem skyldi verður bygging hársins á þann veg að óeðlilegir flókar myndast. Þessar niðurstöður voru birtar í American Journal of Human Genetics á dögunum.

Það verður þó að fylgja sögunni að þó niðurstöðurnar séu óneitanlega áhugaverðar er ekki hægt að segja að þær hafi afgerandi áhrif á heilsufar þeirra sem eru með óeðlilega flókið hár. Það er kannski ekki mjög brýnt rannsóknarefni að finna einhvers konar lækningu við flóknu hári, enda er heilkennið ekki tengt neinum öðrum heilsufarstengdum kvillum nema þá kannski að ástandið gæti verið streituvaldandi.