morning person

Ert þú ein/n af þeim sem finnst fimm að morgni fínn tími til að fara út að hlaupa, getur ekki beðið lengur en til sjö að mæta í vinnuna og nærð svo aldrei að taka síðasta strætó heim vegna þess að þegar síðasti strætó keyrir af stað ert þú alltaf LÖNGU farin/n að sofa?

Eða ertu kannski ein/n af þeim sem myndir alltaf sofa fram að hádegi ef bölvuð vinnan gerði ekki kröfur um annað og ert svo full/ur af orku rétt eftir miðnætti og nýtir þann tíma jafnvel til að stunda líkamsrækt?

Jú við höfum líklega öll reynt að flokka okkur eftir A og B manneskjukerfinu sem við kannski pössum við misvel inní. En nú hefur opnast á þann möguleika að útkljá í eitt skipti fyrir öll hver þinn innri maður er, með því að skoða genatjáningu.

Hópur vísindamanna við University of Leicester notaðist við ávaxtafluguna (Drosophila Melanogaster) til að skoða mismunandi tjáningu gena í A og B týpum. Ávaxtaflugurnar skiptast líka í A og B týpur, sem þýðir að hluti flugnanna var mjög virkur að morgni til meðan hinn hlutinn var virkur seinni partinn eða á kvöldin.

Rannsókn á tjáningu gena í flugunum leiddi í ljós að 80 gen sýndu mismunandi tjáningu milli A og B týpanna. Þessi gen eru tengd ýmsum ferlum, ekki bara stjórnun á líkamsklukkunni. Þó ávaxtaflugan sé kannski ekki lík manninum í útliti þá eru mörg gen sambærileg milli tegundanna og því ekki ólíklegt að gen sem eru virk í A-týpu ávaxtaflugunnar séu einni virk í A-týpu mannsins.

Enn á eftir að skoða hvaða gen sýna sambærilega hegðun í manninum og mögulega munu einhver gen þá detta af listanum. Markmið rannsóknarinnar er að skilgreina hvernig hægt væri að hjálpa fólki, sem sýna öfgahegðun í aðra hvora áttina, til að samstilla betur líkamsklukkuna og gang sólarinnar. Þess utan er ábyggilega hughreystandi fyrir marga að vita til þess að næturbrölt, hvort sem er tilkomið vegna snemmbúinna fótaferða eða síðbúins háttatíma eru bara alveg eðlileg og óviðráðanleg.