Mynd: Kmoj FM
Mynd: Kmoj FM

Í leggöngum kvenna er að finna flókna örveruflóru og getur hún verið mjög breytilegt milli kvenna. Örveruflóran er ekki til staðar að óþörfu en hún spilar meðal annars mikilvægt hlutverk í því að halda leggöngunum heilbrigðum og verjast sjúkdómum.

Nú telja vísindamenn að þeir hafi fundið bakteríur sem geta hreinlega komið í veg fyrir að HIV veiran sýki líkamann og var grein þess efnis birt í tímaritinu mBio fyrr í vikunni.

Í rannsókninni tóku vísindamenn sýni úr leggöngum 31 konu og skoðuðu hreyfingu HIV veirunnar í sýnunum. Í ljós kom að örveruflóra sem innihélt mikinn fjölda bakteríunnar Lactobacillus crispatus var líklegri til þess að verjast HIV smiti en þær sem innihéldu bakteríuna í minni mæli.

Þetta er í fyrsta skipti sem vísindamönnum hefur tekist að sýna fram á að Lactobacillus hafi áhrif á HIV smit. Frekari rannsókna er þörf til að skilja hvaða ástæður liggja að baki en vísindamennirnir binda vonir við að í framtíðinni verði hægt að nýta þessa þekkingu til þess að konur geti varið sig betur gegn HIV smiti. Ein þeirra hugmynda sem varpað hefur verið fram er sú að útbúa smokk með bakteríum á sem gæti hindrað smit. Það verður því spennandi að sjá hvort reynt verði að makraðsetja bakteríusmokka á komandi árum.

Heimild: PopSci