Mynd: Free Images Live
Mynd: Free Images Live

Nú hafa flestir líklega opnað páskaeggið sitt, lesið málsháttinn og gætt sér á gómsætu súkkulaðinu. Það kann þó að koma meira að segja mestu súkkulaðiaðdáendum á óvart að einn lykillinn að því að búa til gott súkkulaði felst í notkun á gersveppnum Saccharomyces cerevisiae.

Til þess að búa til kaffi og súkkulaði eru baunirnar týndar af trjánum og gerjaðar í nokkra daga í þeim tilgangi að brjóta niður aldinkjötið sem umlykur baunirnar. Gerjunin er mikilvægur liður í framleiðslunni og getur notkun á mismunandi stofnum gersveppa haft áhrif á bragð lokaafurðarinna. Ný rannsókn, sem birt var í Current Biology hefur varpað ljósi á fjölbreytileika Saccharomyces cerevisiae og gætu niðurstöðurnar hjálpað okkur að búa til enn betra súkkulaði í framtíðinni.

Rannsóknarhópurinn vildi í rannsókn sinni kanna hver uppruni stofna gersveppsins Saccharomyces cerevisiae, sem notaðir eru í kaffi- og súkkulaðiframleiðslu, væri. Sérstaklega vildu vísindamennirnar kanna hvort gersveppir hafi verið fluttir með trjánum sjálfum frá upprunalegum heimkynnum þeirra í Eþíópíu og Amazonfrumskóginum eða hvort mismunandi stofna væri að finna í mismunandi heimshlutum. Í rannsókninni var erfðaefni gersveppa úr óunnum kaffi- og kakóbaunum frá Mið- og Suður-Ameríku, Afríku, Indónesíu og Mið-Austurlöndum borið saman.

Í ljós kom að mikinn fjölbreytileika var að finna í stofnum gersveppa frá mismunandi svæðum. Að auki voru sterk tengsl á milli stofna gersveppa sem áttu uppruna sinn að rekja til ákveðnna svæða. Svo sterk voru tengslin að hægt var að ákvarða hvaðan baunirnar komu með því einu að skoða erfðaefni gersveppanna.

Niðurstöðurnar benda til þess að stofnar gersveppa í kaffi- og kakóbaunum hafi marga og ótengda uppruna. Einnig benda niðurstöðurnar til þess að á ákveðnum svæðum sé að finna blöndun á milli stofna þar sem erfðaefni gersveppa frá mismunandi heimshlutum hefur blandast saman.

Rannsóknarhópurinn telur að hægt verði að nýta niðurstöðurnar til þess að bæta súkkulaði- og kaffiframleiðslu í framtíðinni, sem hljóta að teljast vera góðar fréttir.