Lavander og tea tree olía eru vinsælar olíur sem gefa góða lykt og eru því notaðar í ýmsar vöru sem viðkoma persónulegum hreinlæti. Oft er þá notast við svokallaðar ilmkjarnaolíur sem hafa með snjallri markaðssetningu fengið jákvæða ímynd og því er fólk óhrætt við að nota þær á ýmsa vegu. Ný rannsókn bendir hins vegar til þess að slík notkun sé mögulega ekki án aukaverkana.

Rannsóknarhópur frá Chicago kynnti rannsóknir sínar á árlegri ráðstefnu Endocrine Society um miðjan síðastliðinn mánuð. Þar kom fram að efni sem finnast í lavander og tea tree olíum geta raskað jafnvægi kynhormónanna estrógen og andrógen.

Estrógen er samheiti yfir hormón sem oft eru tengd við þroskun kvenlegra eiginleika, eins og t.d. brjósta. Meðan andrógen er yfirheiti yfir hormón sem koma aðallega við sögu þegar karlkyns eiginleikar koma í ljós.

Til að skoða hvort efnin sem finnast í olíunum hafi áhrif á hormónajafnvægi þeirra einstaklinga sem nota olíurnar voru átta efni skoðuð sérstaklega í frumuræktunum. Þessi átta efni sem tekin voru fyrir heita: eucalyptol, 4-terpineol, dipentene/limonene og alpha-terpineol, sem koma bæði fyrir í lavander og tea tree olíu, auk linalyl acetate, linalool, alpha-terpinene og gamma-terpinene sem finnst einungis í annarri hvorri. Öll átta efnin höfðu að einhver áhrif á tjáningu gena sem tengjast estrógen eða andrógen búskap frumnanna.

Þessar niðurstöður eru áhyggjuefni þar sem margar ilmkjarnaolíur sem mögulega innihalda sömu efni eru á markaði. Þessi markaður er undir litlu eða engu eftirliti. Þrátt fyrir það er ekki endilega hægt að fullyrða um að notkun þeirra sé alltaf fullkomlega skaðlaus, sérstaklega ekki meðan engin innihaldslýsing liggur fyrir.

Samkvæmt þessu er því ástæða til að fara varlega við notkun efna sem ekki hafa verið rannsökuð til hlýtar, sérstaklega þegar börn eða unglingar eiga í hlut. Þau eru sérstaklega viðkvæm fyrir röskun á boðefnum sem hafa áhrif á þann þroska sem mun brátt eða er að eiga sér stað