Mynd: Jeff Chiu/Associated Press
Mynd: Jeff Chiu/Associated Press

Hjónin Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, og Priscilla Chan, læknir, tilkynntu í gær í gegnum Facebook Live áform um að verja þremur milljörðum bandaríkjadala í sjúkdómarannsóknir. Markmið þeirra er háleitt en stefnan er að lækna alla sjúkdóma fyrir næstu aldamót. Hópur vísindamanna, verkfræðinga, lækna og annarra sérfræðinga kemur til með að vinna að markmiðum verkefnisins.

Verkefnið ber heitið “Chan Zuckerberg Science” og að sögn Zuckerberg er markmiðið að “lækna, koma í veg fyrir, eða geta meðhöndlað alla sjúkdóma á ævi barnanna okkar”. Með þessu vilja þau bæta lífsgæði allra sem eru af sömu kynslóð og dóttir þeirra Max.

Fyrsta verk verður uppbygging nýrrar rannsóknarmiðstöðvar sem ber heitið Biohub. Til að byrja með unnið að tveimur liðum: Cell Atlas, sem gengur út á að rannsaka frumurnar sem mynda líffæri okkar, og Infectious Disease Initiative, sem kemur til með að reyna að finna meðferðir við smitsjúkdómum á borð við HIV og zika.

Zuckerberg sjálfur viðurkennir í tilkynningunni að markmiðið sé afar háleitt og lagði áherslu á að markmiðið sé einfaldlega að hjálpa sem mest til.