Mynd: Huffington Post
Mynd: Huffington Post

Lengi býr að fyrstu gerð er orðatiltæki sem á líklega einstaklega vel við um rannsókn Jen Frihauf og samstarfsfélaga hennar sem birtist nýlega í American Journal of Physiology. En viðfangsefnið var áhrif fæðuvals móður á meðgöngu á afkvæmi.

Heilbrigðisstarfsfólk hefur lengi nýtt sér þætti eins og þyngd móður og sykurstuðul hennar í blóði til að geta sér til um heilsufar fósturs á meðgöngu. En í nýlegri rannsókn koma fram vísbendingar þess efnis að þó móðirin bæti ekki á sig neinum aukaforða meðan á meðgöngu stendur getur fæðuval hennar samt sem áður haft áhrif á líkur þess að afkvæmið verði í yfirþyngd.

Í rannsókninni var notast við rottur sem annars vegar voru aldar á trefjaríku og fitusnauðu fæði og hins vegar á fitu-ríku eða því sem þau kalla í rannsókninni, vestrænu fæði. Þó mæðurnar bættu ekki á sig auka fituforða á meðgöngunni þá sýndu afkvæmi þeirra tilhneigingu til að fitna hraðar þegar mæðurnar neyttu vestrænnar fæðu. Afkvæmin sem ekki voru alin á vestrænu fæði í móðurkviði sýndu ekki sömu tilhneigingu.

Þetta bendir til þess að fæðan sem verður fyrir valinu á meðgöngu setur efnaskiptastuðulinn fyrir afkvæmið og skiptir þá engu hvaða áhrif fæðan hefur á móðurina sjálfa. Enn sem komið er hafa þessar niðurstöður ekki verið staðfestar í mönnum. Á meðgöngu er þó aldrei jafn mikilvægt að velja hollt fæði fram yfir óhollustu því hvað sem ofþyngd afkvæmanna líður þá skiptir þau einnig miklu máli að fá öll næringarefni sem þau þarfnast í gegnum móðurina.