Þrátt fyrir ótrúlegan fjölda vísindarannsókna á efnaskiptum líkamans höfum við enn ekki fundið hið fullkomna megrunarlyf, hvað þá lyf sem heldur okkur ungum. Slíkt lyf þarf að vera ýmsum kostum gætt. Það þarf að stuðla að réttri líkamsþyngd, örva losun vellíðunarhormóna, styrkja vöðvamassann, reyna á hjarta- og æðakerfið og innihalda öll þau næringarefni sem líkaminn þarf fyrir heilbrigð efnaskipti. Í stuttu máli þarf það að ýta undir alla þá jákvæðu þætti sem hreyfing og gott matarræði stuðlar að.

5:2 matarræðið talið hægja á öldrun

Í von um að ná árangri í þessum efnum, að minnsta kosti að hluta til, hafa ýmsar útgáfur af matarræði verið kynntar til leiks. 5:2 matarræðið er einn slíkur lífsstíll sem ætlað er að líkja eftir ástandi sem vitað er að hefur jákvæð áhrif á öldrun líkamans. 5:2 matarræðið hermir eftir eða felur í sér svelti, sem fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að hægir á öldrun líkamans, sér í lagi með styrkingu hjarta- og æðakerfisins.

Hvaða ferlar það eru nákvæmlega sem svelti setur af stað er ekki fullkomlega skilgreint en myndin er þó alltaf að skýrast. Í grófum dráttum má segja að fjórar prótíngerðir spili lykilhlutverk í að miðla jákvæðum áhrifum sveltis: Sirtuin, AMPK, mTOR og PPAR.

Í nýlðinum mánuði birti vísindahópur við University of Colorado at Boulder grein í vísindaritinu Nature Communications þar sem Sirtuin prótínin voru virkjuð með fæðubótarefni, á sama hátt og á sér stað í svelti.

Hvaða hlutverki gegna þessi prótín?

Í manninum finnast að minnsta kosti sjö sirtuin prótín sem gegna mjög víðtækum hlutverkum. Sirtuin prótínin spila meðal annars rullu í stjórnun frumuhringsins, viðgerðarferlum á erfðaefninu, tjáningu rRNA sameinda og seytun hormóna. Mörg Sirtuin prótínin gegna einnig hlutverki í efnaskiptaferlum frumunnar, niðurbrot næringarefna og miðlun orkusameinda inní frumunum.

Sirtuin prótínin eru svokölluð ensím, þ.e. vinnueiningar inní frumunni sem hvetja áfram ákveðin efnahvörf. Sirtuin gegna hlutverki við að merkja eða afmerkja önnur prótín inní frumunni sem miðla áfram ofantöldum þáttum. Þau treysta á ákveðinn hjálparþátt sem kallast NAD+, til að kveikja á ensímvirkninni. Sé NAD+ ekki til staðar hafa Sirtuin prótínin ekki neina virkni svo keðjuverkunin sem þau kveikja á fer ekki í gang.

Fæðubótarefni sem virkjar sömu ferla og 5:2

Viðfangsefni rannsóknarinnar sem birt var í Nature Communications er efni sem heitir nicotinamide riboside, skammstafað NR. NR kveikir á ferli í líkamsfrumum okkar sem eykur styrk NAD+ í frumunum. Eitt af viðbrögðum líkamans í svelti er einmitt hækkandi styrkur NAD+ sem eykur virkni Sirtuin prótína. Sirtuin prótínin miðla þá áfram aukinni virkni sinna markprótína. Með því að taka inn auka NR, er því verið að herma eftir áhrifunum sem líkaminn verður fyrir þegar svelti á sér stað.

NR er nú þegar selt sem fæðubótarefni og rannsóknir á því benda til að það hafi jákvæð áhrif á einstaklinga sem það nota. Áhrif þess hafa þó hingað til ekki verið prófuð sérstaklega í þeim hópi fólks sem er sérstaklega í áhættu fyrir öldrunartengda sjúkdóma og þá sérstaklega hjarta- og æðasjúkdóma.

Í rannsókninni voru 24 heilbrigðir einstaklingar á aldrinum 55-79 fengnir sem sjálfboðaliðar. Þátttakendum var skipt í tvo jafnstóra hópa og voru þeir beðnir um að taka lyf tvisvar á dag, annars vegar 500 mg af NR og hins vegar lyfleysu. Til að draga úr líkunum á fölskum jákvæðum niðurstöðurm var hópnum ekki gert kunngjört hvort um var að ræða þegar þau innbirtu sinn skammt.

Eftir sex vikna meðferð voru teknar blóðprufur úr öllum þátttakendum og aðrir lífeðlisfræðilegir þættir mældir áður en lyfjagjöf var haldið áfram en þá með öfugum formerkjum, þannig að lyfleysuhópurinn fékk 500 mg af NR og lyfjahópurinn tók nú lyfleysu. Að öðrum sex viknum lokum voru sömu próf framkvæmd til að skoða hvort og þá hvaða áhrif NR hafði á heilsu þátttakenda.

Til að meta áhrif lyfsins var NAD+ mælt í blóðprufunum. Styrkur NAD+ var um 60% hærri í þeim einstaklingum sem tóku NR samanborið við lyfleysuhópinn. Til að staðfesta að NAD+ aukningin skilaði sér í aukinni virkni Sirtuin var styrkur ATP í blóðprufunum einnig mælt. ATP eru nokkurs konar orkueiningar frumnanna og lokaafurð keðjunnar sem Sirtuin setur í gang.

Blóðþrýstingsmælingar gáfu vísbendingar um að inntaka á nicotinamide riboside hefði blóðþrýstingslækkandi áhrif. Hér var enginn þátttakenda með skilgreindan háþrýsting en þeir sem komust nálægt því mældust flestir með eðlilegan blóðþrýsting eftir inntöku NR. Álag á hjarta og æðakerfið er eitt helsta einkenni öldrunar og því mjög jákvætt að geta haft áhrif á blóðþrýstinginn áður en hann fer að teljast hækkaður.

Lífstílsbreytingar án aukaverkana

Þessar niðurstöður gefa tilefni til að skoða NR í stærra þýði, en 24 einstaklingar eru því miður of fáir til að gefa raunhæfa mynd. Næstu skref rannsóknahópsins eru því væntanlega að skoða áhrif lyfsins með fleiri sjálfboðaliða og mögulega í fjölbreyttari hóp. Samkvæmt þessari rannsókn er þó ekki ástæða til að óttast neikvæðar aukaverkanir af NR, en engar aukaverkanir sem komu fram i rannsókninni var hægt að tengja við inntöku NR.

Með skýrari mynd af því hvað gerist á sameindastigi við svelti, þ.e. hvaða ferlar það eru sem fara af stað inní frumunum, komumst við nær hina fullkomna yngingarlyfi. Það er þó kannski ekki rétt að leita að ákveðnu lyfi. Frekar mætti orða það sem svo að með réttu matarræði, og mögulegum fæðubótarefnum, ásamt hreyfingu við hæfi getum við haldið lengur í heilsu okkar og orku. Þannig erum við ekki aðeins að horfa fram á ávinninga fyrir einstaklinga, sem eiga þægilegt, sjúkdómalaust ævikvöld fyrir höndum heldur skapar aukin lýðheilsa einnig meira svigrúm í þjóðfélaginu í formi aukinnar starfsorku fyrir þá sem þess óska og lækkunar á kostnaði við rekstur sjúkrahúsa og hjúkrunarstofnanna.

Fréttin birtist fyrst í tímariti og á vefsíðu Stundarinnar