supplements_mass

Fólk sem vinnur hörðum höndum að því að byggja upp vöðvamassa neytir oft fæðubótaefna í þeirri von um að árangur náist þá hraðar. Ný rannsókn sem birt var nýlega í British Journal of Cancer gefur til kynna að notkun efna sem eiga að auka vöðvauppbyggingu hafi ansi leiðar aukaverkanir.

Rannsóknin var unnin við Brown University en í henni var úrtak 869 karlmanna skoðað með tilliti til eistnakrabbameins og ýmissa umhverfis þátta, m.a. notkunar á efnum sem hafa þann tilgang að auka vöðvauppbyggingu. Tilgangur rannsóknarinnar var að skilgreina hvaða umhverfisþættir gætu mögulega haft áhrif á þróun eistnakrabbameina en tíðni þeirra hefur aukist töluvert.

Í ljós kom að þeir sem notuðu slík efni voru í töluvert meiri hættu á að þróa með sér eistnakrabbamein. Áhættan jókst mikið samhliða langvarandi notkun, notkun sem hófst fyrir 25 ára aldur eða notkun þar sem tveimur eða fleirum slíkum efnum var blandað saman. Enn á eftir að skoða betur hvaða þættir það eru sem hafa þessi áhrif en slík fæðubótarefni innihalda m.a. kreatín eða androstenedione, sem er forveri alls kyns hormóna m.a. testósteróns og estrógens.

Frekari rannsókna er þörf til að svara því hvað nákvæmlega efnin gera en líklegt þykir að notkun þeirra sé óæskileg, sé krabbamein ein hliðarverkana þeirra.