screen-shot-2017-05-25-at-22-52-44

Rannsókn sem nýtti heilasneiðmyndir og upptöku af samskiptum feðra við börn sín sýndi að feður ungra barna voru umhyggjusamari og móttækilegri gagnvart þörfum stúlkna en drengja.

Rannsóknir sem skoða samskipti eru oft erfiðar viðfangs þar sem að þær byggja gjarnan á svörum foreldra. Þátttakendur hafa stundum tilhneigingu til að svar á þann hátt sem þeir telja að búist sé við að þeir svari á eða eru hreinlega ómeðvitaðir um eigin hegðun. Til að komast hjá þessu var rannsóknin sem um ræðir framkvæmd bæði með heilasneiðmyndum og í raunheiminum.

Þátttakendur (52 feður í Bandaríkjunum) báru lítið upptökutæki á belti sínu einn virkan dag og einn helgardag í alls 48 klukkustundir. Tækið tók upp umhverfishljóð í 50 sekúndur á níu mínútna fresti á tímabilinu og það sem fór fram á þeim var síðar greint af rannsóknarhópnum. Í ljós kom að feður stúlkna voru móttækilegri ef barn þeirra grét en feður sona. Auk þess voru feður líklegri til að syngja fyrir dætur sínar og töluðu á opinskárri hátt um tilfinningar við stúlkubörn. Feður voru aftur á móti líklegri til ærslaleika (e. rough-and-tumble play) við drengi og að nota afrekstengd orð (líkt og stolt og sigur) þegar þeir töluðu við syni sína.

Auk þess að taka upp samskipti feðra og barna gengust feðurnir undir sneiðmyndatöku á heila á meðan þeim voru sýndar myndir af eigin barni, óþekktu barni og óþekktun fullorðnum einstaklingi með mismunandi svipbrigði. Feður dætra sýndu meiri viðbrögð í þeim svæðum heilans sem tengjast verðlaunum og tilfinningastjórnun þegar þeim voru sýndar myndir af glaðlyndum börnum sínum en feður sona. Feður sona sýndu aftur á móti sterkari viðbrögð við hlutlausum svip barna sinna en feður stúlkna og enginn munur var á viðbrögðum við sorgmæddum svip barna.

Út frá niðurstöðunum var ekki hægt að greina hvort munurinn á samskiptum og viðbrögðum eftir kyni barnsins lægi í því að feður hefði erfðafræðilega tilhneigingu til að koma öðruvísi fram við stúlkur en drengi eða hvort um samfélagsleg áhrif væir að ræða. Að auki segja niðurstöðurnar okkur ekkert um hvaða áhrif þessi mismunandi samskipti hafa til lengri tíma.

Fyrsti höfundur greinarinna, Jennifer Mascaro við Emory háskóla, segir niðurstöðurnar sýna fram á mikilvægi þess að hafa í huga ómeðvitaða hegðun í samskiptum við ung börn. Hún sagði einnig: „Flestir feður eru að reyna sitt besta og gera allt sem þeir geta til að hjálpa börnum sínum ná langt en það er mikilvægt að skilja hvernig samskipti þeirra við börn sín gætu verið lítillega hlutdræg eftir kyni“.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Behavioral Neuroscience.