Mynd: PsyPost
Mynd: PsyPost

Einmanaleiki getur verið erfiður viðfangs og dæmin hafa sýnt að fólk sem einangrast vegna elli eða sjúkdóma missi í kjölfarið heilsuna. Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem er einmana er 14% líklegra til að deyja en manneskjur í sömu aðstæðu sem hafa félagsskap. Nýleg rannsókn sýnir hvaða afleiðingar einmanaleikinn getur haft á líkamann okkar, en tilfinningin sem fylgir því að vera einmana hefur áhrif á genatjáningu manna, og reyndar apa líka.

Rannsókn sem framkvæmd var við University of Chicago og birtust nýlega í PNAS sýna hvaða áhrif einmanaleikinn getur haft. Rannsóknin var framkvæmd á bæði mönnum og öpum en apar voru notaðir í þessari rannsókn til að skoða breytingar á genatjáningu þegar einstaklingarnir voru settir í erfiðar aðstæður.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að einmana einstaklingar sýna aukna tjáningu á genum sem tengjast bólgusvari og minni tjáningu á genum sem tengjast vörnum okkar gegn veirum. Þessar tjáningabreytingar koma til vegna áhrifa tilfinninga á borð við einmanaleika sem líkjast mjög þekktu viðbragð líkamans sem venjulega er kallað „fight or flight“, áreiti sem lætur okkur annað hvort flýja eða berjast.

Rannsakendur sýndu fram á að í upphafi þessa viðbragðs, hjá einmana fólki, hefst aukin framleiðsla mónócýtum, frumum sem eru hluti af ónæmiskerfinu. Í kjölfarið heldur ónæmiskerfið að það þurfi að fara í einhvers konar viðgerðir og bólgusvar eykst. Á sama tíma setur ónæmiskerfið minni viðbúnað í baráttuna við veirusýkingar. Þannig breytir ónæmiskerfið hegðun sinni án þess að hafa raunverulega ástæðu fyrir því, nema auðvitað tilfinninguna einmanaleika.

Næsta skref vísindahópsins er að skoða hvernig þessar breytingar geta leitt til hærri tíðni dauðsfalla, en aukið óþarfa bólgusvar hefur þó nokkrar leiðir til að leiða til þróunar sjúkdóma. Af þessari rannsókn að dæma myndi samfélagið spara sér mikla fjármuni ef aukið væri í félagsþjónustu einstaklinga sem eiga á hættu að einangrast, svo sem eldri borgara og sjúklinga. Fyrir utan fjármunina sem sparast þá líður manni bara einhvern veginn betur að búa í samfélagi þar sem leitast er við að hjálpa fólki að vera hamingjusamt.