MooseDocBMI

BMI stuðull er fyrirbæri sem sumir nota til að meta heilsufar einstaklinga. BMI stuðullinn er kannski ekki heppilegasta tólið til þess, en hann getur þó gefið einhverja hugmynd um hvar á skalanum „feitur-grannur“ viðkomandi stendur. Það vill svo undarlega til að þeir sem teljast í yfirþyngd, skv BMI stuðli lifa að jafnaði lengur en þeir sem eru með annað hvort of háan eða of lágan BMI stuðul. Þessi staðreynd hefur lengi reynst vísindamönnum ráðgáta en nýleg rannsókn við Washington University varpar nú hugsanlega ljósi á hvers vegna.

Fituvefur samanstendur af fitufrumum sem safna fitu en gegna einnig mikilvægu hlutverki við seitun ýmissa hormóna og annarra efna, m.a. ensíma sem kallast NAMPT. NAMPT hvatar myndun efnis sem kallast NAD, en þetta efni spilar stór hlutverk sem orku-uppspretta frumnanna. Áður héldu vísindamenn að seitun NAMPT útí utanfrumuefni væri tilkominn vegna leka úr dauðum frumum. Hópur Shin-ichiro Imai, sem fór fyrir rannsókninni, var á annari skoðun og vildi athuga hvaða hlutverki ensímið gengdi í utanfrumuvökva.

Til þess notaði hópurinn mýs sem skorti NAMPT í fituvef. Þegar ekkert NAMPT var til staðar hafði það gríðarleg áhrif á fituvefinn, sem fór að skorta orku. Aðrir vefir virtust ekki verða fyrir áhrifum, fyrir utan einn ákveðinn stað í heila, undirstúku (hypothalamus). Undirstúkan stjórnar meðal annars tilfinningum, meðvitund, svefnmynstri og fæðuinntöku. Það er því mjög mikilvægt að þessi hluti heilans geti virkað jafnvel undir álagi eins og í svelti. Þegar ekkert NAMPT er til staðar í fituvef músa þá er orkustig undurstúkunnar einnig lágt.

Þessar niðurstöður, ásamt fyrri rannsóknum Imai og hóps hans á prótíninu SIRT1, sem einnig virkjar orkuauðlindir frumnanna, benda til þess að fituvefurinn er mikilvægt verkfæri líkamans til að viðhalda heilastarfsemi jafnvel þegar engin fæða er til staðar.

Eins og Imai orðaði það sjálfur þá er rökrétt að líkaminn hafi einhverja leið til að viðhalda heilastarfsemi í hvaða árferði sem er. Úti í náttúrunni hafa dýr ekki jafnan aðgang að fæðu en þegar þau eru svöng dugar skammt að sitja bara og stara útí loftið þá er einmitt tíminn sem dýrin þurfa að vera á varðbergi.

Þessar niðurstöður gætu að hluta til útskýrt hvers vegna fólk sem samkvæmt BMI stuðli flokkast í yfirvigt hefur hærri lífslíkur en aðrir. Mögulega væri hægt í framtíðinni að nýta þessar niðurstöður til að þróa lyf sem sporna við öldrunarsjúkdómum.