masking-depression

Þunglyndi er einn af þeim sjúkdómum sem kemur fram í andlegri líðan. Þeir sem þjást af þunglyndi eru yfirleitt taldir hafa skert flæði á boðefninu seratónín í heilanum. Til að meðhöndla þunglyndi er fólki því gefið lyf sem hefur þau áhrif að flæði serótóníns er aukið. Slík örvun er ekki endilega sérvirk fyrir þau svæðin í heilanum sem þurfa á því að halda og þar af leiðandi geta lyfin haft ýmsar aukaverkanir.

Nú hefur hópur í University of Maryland birt niðurstöður rannsóknar á nýjum þunglyndislyfjum, sem miða ekki að því að örva svæði í heilanum heldur að því að bæla niður þau svæði í heilanum sem vinna hamlandi. Þegar hindrandi boð hafa verið minnkuð eru líkur á að örvandi skilaboð, eins og aukið flæði serótóníns færist í aukana.

Rannsóknin sem birtist í Neuropsychopharmacology snerist um að prófa lyfið á rottum. Efnin sem um ræðir kallast GABA-NAM og bindast GABA-viðtökum í heilanum, sem miðla hindrandi skilaboðum í taugakerfinu. Efnin voru prófuð annars vegar á rottum sem sýndu einkenni þunglyndis eftir streitumeðhöndlun og hins vegar rottur sem ekki fengu streitumeðhöndlun.

Þegar rottum var gefið lyfið sáust áhrif þess innan 24 klst, sem er mikil framför frá þeim lyfjum sem nú eru notuð en virkni þeirra sést eftir allt að 8 vikur. Þessi áhrif komu hins vegar ekki fram í rottum sem ekki fengu streitumeðhöndlun og gefur það vonir um að lyfið hafi litlar aukaverkanir. Efnið sem skilaði bestum árangri miðar á GABA viðtaka með α5 undireiningu sem er einungis til staðar í ákvðnum hlutum heilans, en það minnkar einnig líkurnar á óæskilegum aukaverkunum.

Lyfið á enn eftir að prófa í mönnum og næsta skref rannsóknarhópsins er að fara með lyfið í klínískar prófanir. Á næstu árum mun því koma í ljós hvort nýtt lyf við þunglyndi sé fundið. Lyf sem þetta, fljótvirkt og aukaverkanalaust hljómar næstum of gott til að vera satt. En þó lyfið sýni af sér aukaverkanir eða virki ekki 100% á alla sjúklinga þá er ljóst að fleiri úrræða er þörf fyrir þá sem þjást af þunglyndi og lyf sem miða á aðra virkni í heilanum eru hluti af því.