Mynd: Ask Dr Manny
Mynd: Ask Dr Manny

Konur sem nýlega hafa farið í gegnum mæðravernd á meðgöngu kannast að öllum líkindum við að hafa fengið ráðleggingar um að taka fólinsýru, að minnsta kosti á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar. Ástæðan er sú að fólat, sem við nýtum úr fólinsýrunni, er mikilvægt efni fyrir taugaþroska fóstursins á ákveðnu þroskaskeiði. Skortur á fólati eykur t.d. líkur á því að barnið verði á einhverfurófinu.

Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda nú til þess að leiðbeiningar um aukna inntöku duga kannski ekki til, til að koma í veg fyrir frávik í taugaþroskun sem gæti svo leitt til einhverfu. Í rannsókninni er fylgst með tæplega 1400 pörum, móðurs og barns, frá árunum 1999-2013. Á fyrstu þremur dögum eftir fæðingu var fólat magn í blóði móður mælt og fylgni þess við einhverfu metin.

Í ljós kom að ein af hverjum tíu konum mældust með fólat yfir viðmiðunarmörkum stuttu eftir fæðingu. Börn þessara kvenna voru í aukinni áhættu að vera á einhverfurófi. Þetta virðast vera svolítið misvísandi upplýsingar, konum er sagt að taka fólinsýru en svo sýnir þessi rannsókn að of mikið af því í blóði hefur þveröfug áhrif. En þetta er ekki alveg svona einfalt, það sem er að öllum líkindum að eiga sér stað hjá mæðrunum sem mælast yfir viðmiðunarmörkum í fólati, er að þær ná ekki að vinna úr fólatinu og koma því inní kerfið til að nota það. Þess vegna safnast það fyrir í blóðinu, í stað þess að taka þátt í því gríðarmikilvæga starfi sem þroskun fósturs er.

Vísindahópurinn sem vann að rannsókninni segir að frekari rannsóknir á sviðinu séu fyrirhugaðar, en mögulega gæti borgað sig að skoða fólatmagn mæðra í blóði á meðan á meðgöngu stendur samhliða aukinni inntöku fólinsýru. Með því móti væri hægt að finna þær konur sem eiga erfitt með að vinna fólatið og koma þannig á einhvern hátt í veg fyrir afleiðingarnar.