infant

Offita og ofþyngd er vaxandi heilsufars vandamál í vestrænum ríkjum nútímans. Offita á meðgöngu eykur líkur á meðgönguerfiðleikum hjá konum, á borð við meðgöngusykursýki og meðgöngueitrun, en líkamlegt ástand móður hefur einnig áhrif á einstaklinginn sem hún fóstrar í 9 mánuði.

Börn mæðra sem glíma við offitu eru í meiri áhættu að fá alls kyns fylgkvilla, eins og sykursýki eða hjarta- og æðasjúkdóma, en þau börn sem eiga móður í kjörþyngd. Ný rannsókn bendir nú til þess að börnin verði fyrir áhrifum strax á fósturstigi.

Rannsóknin var unnin við University of California, Riverside og í henni var naflastrengsblóð skoðað úr 39 börnum mæðra sem voru í kjörþyngd, ofþyngd eða flokkuðust með offitu. Ónæmmisfrumur sem einangraðar voru í naflastrengsblóði voru örvaðar með mótefnum úr bakteríum. Frumur sem tilheyrðu börnum mæðra sem glímdu við offitu, brugðust verr við í samanburði við börn sem áttu mæður sem flokkuðust í kjörþyngd. Að auki voru ónæmisfrumur þessara barna, sem áttu mæður sem glímdu við offitu, færri í samanburði við börn mæðra sem voru í kjörþyngd.

Það sem þessar rannsóknir gefa til kynna er að börnin eru veikari fyrir sýkingum og bregðast verr við bólusetningum en börn sem eiga mæður sem flokkast í kjörþyngd. Ónæmiskerfið spilar einnig stórt hlutverk í þróun margar sjúkdóma á borð við sykursýki, astma og fleiri sem allir hafa sýnt aukna tíðni meðal barna sem eiga mæður sem glíma við offitu.

Þessar niðurstöður benda til þess að mæður sem kljást við offtu gætu einnig verið að búa börnum sínum líkamleg vandamál í framtíðinni. Enn á eftir að staðfesta niðurstöðurnar í stærra þýði, og líklegt er að fleiri þættir spili inní en BMI stuðullinn einsamall. Offita gæti auðvitað orsakað einhver truflun í seitun hormóna og slíku en þar að auki er offita yfirleitt afleiðing óheilbrigðs lífernis, sem felur í sér hreyfingaleysi og óhollt matarræði, og það gæti einnig haft áhrif á fóstrin.