vaccination-1215279_1920

Yfirvöld í Frakklandi hafa tekið ákvörðun um að skylda foreldra til að bólusetja börn sín gegn 11 algengum sjúkdómum. Edouard Philippe, forsætisráðherra Frakklands, tilkynnti þetta fyrr í vikunni og tekur skyldan gildi árið 2018.

Nú þegar er skylt að bólusetja börn í landinu gegn þremur sjúkdómum: stífkrampa, barnaveiki og mænusótt. Á næsta ári munu eftirfarandi sjúkdómar bætast í hópinn: mislingar, lifrabólga B, inflúensa, kíghósti, hettusótt, rauðir hundar, lungnabólga og heilahimnubólga C.

Ástæða þess að þetta skref er stigið núna er mislingafaraldur sem geisað hefur í Frakklandi. Á milli áranna 2008-2016 hafa 24.000 tilfelli mislinga greinst í landinu, þar af 10 sem leiddu til dauðsfalla.

Heilbrigðisráðherra Frakklands, Agnès Buzyn, benti á í samtali við dagblaðið Le Parisien að skortur á bólusetningum væri lýðheilsuvá í landinu og að óásættanlegt væri að börn létu lífið vegna mislinga.

Með fullnægjandi tíðni bólusetninga er hægt að koma í veg fyrir mislingafaraldra líkt og þann sem Frakkland hefur þurft að glíma við. Því miður hefur tíðni bólusetninga víða um heim minnkað, meðal annars vegna áróðurs gegn þeim sem ekki á við rök að styðjast.