getty_rm_photo_of_sperm_fertilizing_egg

Þó svo að miklar framfarir hafi orðið í tæknifrjóvgun hefur enn ekki verið mögulegt fyrir tvo karlmenn að eiga saman barn, þetta gæti hugsanlega breyst í framtíðinni ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar.

Hópi vísindamanna í Cambridge hefur nú tekist að búa til frumstæðar gerðir af gervisæði úr fósturstofnfrumum með því að rækta þær við ákveðnar aðstæður í viku. Þeim tókst einnig, með sömu aðferð, að breyta húðvef úr fullorðunum einstaklingum í undanfara kynfruma. Þetta er þýðingamikið skref í áttina að því að búa til kynfrumur sem eru með sama erfðaefni og t.d. einstaklingar sem glíma við ófrjósemi. Enn sem komið er hefur ekki verið reynt að láta slíkar frumur verða að fullþroska kynfrumum en þær ættu að hafa burði til þess, samkvæmt talsmanni hópsins. Í framhaldinu mun rannsóknarhópurnn prufa frumurnar í músum til að athuga hvort þær þroskist eðlilega.

Aðferðin sem um ræðir er þó ekki gallalaus. Húðfrumur úr konum geta einungis verið notaðar til að búa til egg því þær hafa tvo X litninga og engan Y litning. Karlmenn hafa hins vegar einn X litning og einn Y litning sem þýðir að fræðilega séð ætti að vera hægt að búa til bæði sæði og egg úr húðfrumum þeirra. Rannsóknarhópurinn telur þó ólíklegt að það verði mögulegt miðað við þá þekkingu sem til staðar er í dag.

Löggjöfin í Bretlandi, þar sem rannsóknarhópurinn starfar, bannar notkun á gervisæði og eggjum svo henni þyrfti að breyta til að geta nýtt tæknina ef aðferð rannsóknarhópsins reynist virka. Það væri þá mögulegt að nota gervisæði og gerviegg til að aðstoða bæði samkynhneigð pör og pör sem eiga við ófrjósemisvandamál að stríða.

Spennandi verður að fylgjast með framhaldinu en fyrir áhugasama er hægt að nálgast greinina, sem birt var í tímaritinu Cell, hér
og ítarlegri umfjöllun The Guardian hér.