vein

Til að koma til móts við þá fjölmörgu sem þurfa á nýjum líffærum að halda er ekki nóg að bíða bara eftir líffæragjöfum heldur vinna vísindamenn hörðum höndum við að þróa leiðir til að byggja ný líffæri. Það er gert með því að hvetja frumur til að mynda frumugerðir og strúktúra sem finnast í líffærunum. Þökk sé allri þeirri þekkingu sem til er um frumuþroskun og boðleiðir tengdar þeim, þá er þetta hægt. Vefjaverkfræði er mislangt á veg komin en segja má að æðar séu þónokkuð vel skilgreindar í þessum efnum. Vandamálið er helst að koma nýsmíðuðum æðum inní líkamann.

Yfirleitt þegar vefjaverkfræði er beitt er notast við vefjasérhæfðar stofnfrumur úr einstaklingnum sem fær ígræðsluna til að minnka líkurnar á því að líffærinu sé hafnað. Algengasta orsök þess að ígræddar æðar sem fengnar eru með þessum hætti virka ekki er vegna þess að á þeim verður óeðlileg þrenging (stenosis) stuttu eftir ígræðslu. Nú hafa vísindamenn við Nationwide Children’s Hospital í Columbus, Ohio uppgötvað aðferð sem gæti orðið til þess að hægt verði að koma í veg fyrir þessi viðbrögð líkamans og auka á allan hátt líkurnar á að æðaígræðsla gangi vel fyrir sig.

Í tilraun sinni notaðist hópurinn annars vegar við heilbrigðar mýs og hins vegar SCID mýs, sem eru með verulega skert ónæmiskerfi. Þegar nýsmíðaðar æðar voru græddar í SCID mýsnar varð engin óeðlileg þrenging á æðinni og ígræðslan gekk vel, en það sama átti ekki við með heilbrigðu mýsnar. Þegar vísindahópurinn bældi svo niður ónæmissvar heilbrigðu músanna með því að hindra drápsfrumur ónæmiskerfisins og blóðflögurnar líka þá heppnaðist ígræðslan á svipaðan hátt og ígræðslan í SCID mýsnar.

Þetta bendir til þess að samanlögð áhrif fyrstu viðbragða ónæmiskerfisins og bólgusvörun hafi afgerandi áhrif á afdrif ígræddra líffæra. Þessar niðurstöður munu koma sér vel í framtíðar ígræðslum og nýsmíðun líffæra. Næstu skref eru þá að skoða hvort sömu viðbrögð fást í mannslíkamanum.