seedling-1062908_1920

Í grein sem birtist nýverið í tímaritinu Drug and Alcohol Dependence kemur fram að í þeim fylkjum Bandaríkjanna þar sem kannabisefni hafa verið lögleidd fækkar sjúkrahúsinnlögnum vegna misnotkunar á lyfseðilsskyldum verkjalyfjum. Lögleiðingin virðist aftur á móti ekki fjölga innlögnum vegna notkunar kannabisefna.

Notkun lyfseðilsskyldra verkjalyfja úr flokkið ópíóíða er stórt vandamál víða um heim og hefur dánartíðni vegna notkunar þeirra í það minnsta fjórfaldast í Bandaríkjunum á síðustu tuttugu árum.

Afar skiptar skoðanir eru á lögmæti þess að lögleiða kannabis efni en víða í Bandaríkjunum hafa þau verið lögleidd til notkunar í læknisfræðilegum tilgangi, til dæmis til að bæta líða þeirra sem þjást af krabbameini. Rannsóknir á notkuna kannabisefna hafa sýnt að þrátt fyrir það að kannabis efni séu síður en svo skaðlaus þeim sem þau nota að staðaldri eða hefja notkun efnanna snemma á lífsleiðinni eru áhrifin minniháttar hjá þeim sem nota kannabisefni stöku sinnum.

Í úrvinnslu rannsóknarinnar voru gögn um útskriftir frá spítölum á árunum 1997 til 2014 skoðuð í 27 fylkjum Bandaríkjanna. Þegar útskriftir vegna ópíóða fíknar, misnotkunar eða ofskömmtunar voru skoðuð sérstaklega kom í ljós að í þeim fylkjum þar sem notkun kannabisefna hafði verið lögleidd í lækningaskini féll tíðni innlagna vegna misnotkunar ópíóíða um 23% og ofskömmtunar um 11%.

Í öllum fylkjum fjölgaði innlögnum tengdum notkun á bæði kannabisefnum og lyfseðilsskyldum verkjalyfjum um 300%, að meðaltali, á tímabilinu. Engar vísbendingar fundust um að lögleiðin kannabisefna leiddi til fjölgunar á innlögnum vegna notkunar efnanna.

Höfundur greinarinnar, Yuyan Shi, bendir á að ekki sé hægt að fullyrða að lögleiðingin kannabisefna sé í raun það sem er að valda fækkun innlagna vegna notkunar lyfseðilsskyldra verkjalyfja. Þó séu sterkar vísbendingar um að það sé hliðarverkun lögleiðingarinnar. Shi mælir ekki með því að lögleiðing kannabisefna sé notuð í þeim tilgangi að draga úr notkun lyfseðilsskyldra verkjalyfja að svo stöddu en bendir á mikilvægi þess að rannsaka tengslins þar á milli frekar.