_91400345_hi035552031

Fyrir fimm mánuðum fæddist drengur í Mexíkó sem er ólíkur öllum öðrum börnum að því leiti að hann ber ekki erfðaefni tveggja foreldra eins og vant er heldur þriggja.

Móðir barnsins er beri fyrir sjúkdómi sem nefnist Leigh heilkennið sem hefur áhrif á þroskun taugakerfisins. Þrátt fyrir að vera sjálf heilbrigð er stökkbreytingu sem veldur heilkenninu að finna í fjórðungi hvatbera hennar og hefur heilkennið þegar dregið tvö barna hennar til dauða. Til þess að koma í veg fyrir að það sama kæmi fyrir þriðja barn hennar og eiginmanns hennar fengu hjónin aðstoð sérfræðinga við New Hope Fertility Center í New York.

Genin fyrir sjúkdómnum er að finna í erfðaefni hvatbera en í hvatberum okkar er að finna 37 gen. Þar sem að enga hvatbera er að finna í sáðfrumum erfist hvatbera DNA eingöngu frá móður. Því var hægt að nýta nýja tækni til að fjarlægja kjarnann úr eggfrumu móðurinnar og koma honum þess í stað fyrir í eggfrumu úr annarri konu sem kjarninn hafði verið fjarlægður úr. Í kjölfarið var eggið síðan frjóvgað með sæði föðursins og þannig varð til fósturvísir sem bar erfðaefni þriggja einstaklinga.

Fimm egg voru frjóvguð með þessum hætti en aðeins einn lífvænlegur fósturvísir stóð eftir. Fósturvísinum var komið fyrir í legi móðurinnar og fæddist heilbrigt barn níu mánuðum síðar.

Vegna þess að aðferðin hefur ekki verið samþykkt í Bandaríkjunum fór vinnan fram í Mexíkó þar sem engar reglur gilda um slíkar meðferðir.

Tæknin er umdeild sem og ákvörðunin að fara framhjá reglum sem gilda í Bandaríkjunum en að sögn Sian Harding sem sá um að meta siðferði sambærilegrar meðferðar sem hefur fengið leyfi í Bretlandi var vel að vinnunni staðið.

Prófanir hafa verið gerða á erfðaefni drengsins og stökkbreytinguna er aðeins að finna í um 1% af hvatberum DNA hans, talið er að um 18% þurfi til að stökkbreytingin hafi áhrif. Þar sem að um dreng er að ræða er ekki hætta á því að hann komi til með að erfa börn sín af stökkbreytingunni þar sem hvatberar hans munu ekki erfast áfram til næstu kynslóðar.