screen-shot-2016-12-15-at-21-20-28

Hvatinn hefur áður fjallað um þá umdeildu aðferð að nota erfðaefni þriggja einstaklinga við að búa til barn. Þetta kann að hljóma furðulega en erfðaefnið getur komið frá þremur einstaklingum sé notast við kjarna einnar eggfrumu, einnar sæðisfrumur og svo hvatbera, sem finnast í eggfrumunni sjálfri þ.e. umfrymi hennar, frá þriðja aðila.

Þegar einstaklingur er búinn til með þessari aðferð er eggfruma frá móður frjóvguð með sæðisfrumu frá föður og þegar frumurnar hafa runnið saman og myndað tvílitna frumu er kjarninn úr þeirri frumu fluttur yfir í gjafa eggfrumu sem búið er að fjarlægja kjarnann úr. Hvatberar erfðast einungis í gegnum eggfrumuna og því er í þessu tilfelli um þrjá foreldra að ræða.

Í fyrra settu Bretar saman reglugerð þar sem þessi aðgerð er leyfð í undantekningatilellum, þ.e. þar sem vitað er að móðirin ber sjúkdóma í erðaefni hvatbera sinna og því er hægt að koma í veg fyrir að einstaklingur erfi þá sjúkdóma. Í fjölmörgum öðrum löndum hafa ekki verið sett nein lög eða reglur um það hvernig fara eigi með þessa vísindalegu þekkingu.

Í september 2016 bárust fréttir af fæðingu drengs í Mexíkó sem fékk þann heiður að vera fyrsta barnið í heiminum sem er búinn til úr erfðaefni þriggja einstaklinga. Þann 5. janúar síðastliðinn fæddist svo í Úkraínu stúlkubarn sem búið hafði verið til með þessum hætti. Foreldrar þessa stúlkubarns höfðu reynt að eignast barn í 10 ár, án árangurs en með því að notast við gjafaegg tókst loksins að búa til heilbrigt fóstur. Næsta þriggja foreldra barn er svo væntanlegt í mars en það er einnig í Úkraínu.

Þó þessi aðferð geti verið svar fjölda para við ófrjósemi er mikilvægt að staldra við. Öll vísindi er hægt að misnota og það er einmitt þess vegna sem Bretar hafa sett lög um notkun aðferðarinnar áður en hún er komin í fulla notkun.

Enn er ýmsum líffræðilegum spurningum ósvarað, þar sem einstaklingur með erfðaefni þriggja foreldra hefur aldrei áður verið til þá vitum við ekki hvort það getur haft einhver áhrif á líffræðilega ferla. Líklegt er þó að svo sé ekki þar sem hvatberagen hafa í langflestum tilfellum áhrif á orkubúskap.

Hitt er þó kannski meira áhyggjuefni en það er siðfræðileg hlið þess að búa til einstaklinga sem í raun eiga ættir að rekja til þriggja foreldra. Er réttlætanlegt að nota þessa aðferð í hvaða tilfelli sem er? Hver er réttur konunnar sem gefur hvatberana sína? Hver er réttur barnsins til að kynnast uppruna hvatbera sinna? Til að koma í veg fyrir að svona og margar erfiðari spurningar komi upp þurfa vísindamenn að velta öllum möguleikum uppi áður en eitthvað kemur uppá.