Mynd: The Verge
Mynd: The Verge

Í nýliðinni viku tilkynntu vísindamenn um langþráð afrek sín í framförum tæknifrjóvgunna hunda. Grein þess efnis birtist 9. desember síðastliðinn í PLOS one en þar er ferlinu lýst, ferlinu sem vísindamenn hafa barist við að framkvæma síðan fyrsta barnið fæddist með hjálp tæknifrjóvgunar árið 1978. Rannsóknin var framkvæmd við Cornell háskóla í Bandaríkjunum.

Helstu hindranir sem þurfti að yfirstíga í ferlinu voru í megindráttum þrjár. Í fyrsta lagi reyndist erfitt að safna eggjum til frjóvgunar þar sem eggin þroskast ekki á alveg sambærilegan hátt og í öðrum spendýrum. Til að koma til móts við þennan vanda var eggjunum safnað degi seinna en vant er með til dæmis menn.

Næsta stóra hindrun var svo að frjóvga eggið en sæðið þarf ákveðnar aðstæður til undirbúnings frjóvgunnar sem vísindamennirnir þurftu þá að herma eftir. Í því skyni var magnesíum aukið í frumuræktinni, sem dugir til að gera sæðið hæft til frjóvgunnar.

Loka hindrunin var svo að varðveita frjóvguð egg, eða fósturvísa, í frosti þar til tíkin sem fengin var til að ganga með hundana var tilbúin til að taka á móti eggjunum. Tímasetningin á uppsetningu eggjanna er mjög mikilvæg, enda heldur tíkin ekki fóstri nema við mjög ákveðnar aðstæður sem eru bara til staðar einu sinni til tvisvar á ári.

Niðurstaða tilraunarinnar eru sjö heilbrigðir hvolpar. Vonir standa til um að þessi framþróun geri hundaræktendum kleift að nýta sér vísindin til að minnka líkur á erfðasjúkdómum. Hundar eiga nefnilega við ótrúlega marga erfðasjúkdóma að etja. Mjög líkleg ástæða fyrir því er afstaða mannsins til hundaræktunar, þar sem ræktendur togað hefur verið í ákveðna eiginleika tegunda. Að sama skapi gefa þessar niðurstöður mönnum gríðarlega möguleika á rannsóknum á tæknifrjóvgunum sem og meðhöndlun fósturvísa sérstaklega með tilliti til erfðalækninga á fósturstigi.

Myndbandið hér að neðan er af hvolpunum og var birt á heimasíðu Cornell háskóla.