screen-shot-2016-10-04-at-18-00-44

Vonir standa til að þunglyndislyfið flúoxitín geti örvað þroskun taugafrumna í fóstrum með Down-heilkennið og þannig bætt lífsgæði þeirra einstaklinga sem hafa heilkennið.

Um eitt af hverjum 800 börnum sem fæðist á Íslandi fæðist með Down-heilkennið. Heilkennið stafar að því að svokölluð þrístæða en á 21. litning sem undir eðlilegum kringumstæðum væru tveir. Einstaklingar með Down-heilkennið hafa almennt lægri greindarvísitölu en meðalmanneskja og lægri lífslíkur vegna líkamlegra kvilla sem fylgja heilkenninu.

Þegar sjö ára sonur bandarískrar konu, Teresa Cody, sem fæddist með Down-heilkennið hafði ekki enn sagt sitt fyrsta orð ákvað Cody að leita leiða til að bæta vitsmunalega getu sonar síns. Hún reyndi ýmsi vítamín og fæðubótaefni auk lyfja. Eftir að hafa lesið sér til um rannsóknir sem sýndu fram á jákvæð áhrif þunglyndislyfsins flúoxetíns á vöxt taugafrumna í músum tókst Cody að sannfæra lækni drengsins um að skrifa upp á lyfið fyrir hann.

Hvort sem það var vegna lyfsins eða annarra þátta telur Cody að þroska sonar hennar hafi farið fram. Cody stofnaði í kjölfarið samtökin Changing Minds Foundation árið 2006 til að kynna lyfin sem sonur hennar tók inn.

Frásagnir sem þessi geta haft slæmar afleiðingar þegar engin vísindaleg rök liggja að baki. Frásögn Cody leiddi þó til þess að faðir sem átt einnig barn með Down-heilkennið, Paul Watson, hvatti vísindamenn við University of Texas Southwestern til að framkvæma rannsókn til að kanna áhrif lyfsins á þroska barna með Down-heilkennið.

Nú hefur háskólinn farið af stað með rannsókn þar sem 21 kona sem ber fóstur með þrístæðu á 21. litningi tekur annað hvort inn flúoxetín eða lyfleysu á meðgöngunni. Eftir að barnið kemur í heiminn fær það síðan lyfið eða lyfleysuna fyrstu tvö ár lífs síns.

Þrátt fyrir lítið úrtak vonast rannsóknarhópurinn til þess að hægt verði að sýna fram á tölfræðilegan mun á vitsmunalegri getur barnanna eftir því hvort þau fengu lyf eða lyfleysu, hvort sem niðurstöðurnar verða jákvæðar eða neikvæðar. Séu niðurstöðurnar jákvæðar má ætla að frekari rannsóknir verði gerðar til að kanna áhrifin sem hugsanlega gætu leitt af sér meðferðarúrræði. Ef niðurstöðurnar eru á hinn vegin og ekki tekst að sýna fram á áhrif lyfsins kunna niðurstöðurnar að koma í veg fyrir að foreldrar reyni að nýta lyfið í þeirri von að það hjálpi börnum þeirra.