baby

Þrátt fyrir algengi einhverfu í heiminum er ástæða hennar enn sem komið er ráðgáta fyrir vísindaheiminn. Margar tilgátur hafa verið uppi um orsakir einhverfu og ein þeirra er sú að um efnaskiptagalla sé að ræða, þar sem heilinn, meltingin og ónæmiskerfið ná ekki að tala saman.

Útfrá þessum tilgátum hafa til dæmis margir reynt breytingar á matarræði sem meðferð við einhverfu. Þó fáar rannsóknir liggi fyrir um áhrif matarræðis þá virðast margir sjá eða finna mun á einhverfu einkennum. Rannsóknarhópur undir handleiðslu Robert Naviaux við the University of California San Diego vann nýverið að einni slíkri rannsókn sem gefur til kynna að einhverfa geti verið afleiðing efnaskiptavanda.

Hópurinn fékk leyfi til að gera mjög litla klíníska tilraun þar sem 10 drengir með einhverfu voru fengnir til að taka inn annars vegar lyfleysu og hins vegar lyfið suramin. Suramin er lyf sem hefur verið notað við svefnsýki í Afríkuríkjum um áraraðir og talið er að lyfið hafi fyrst komið fram á sjónarsviðið um 1916. Þrátt fyrir aldur lyfsins er það ekki á lista FDA (food and drug administration) í Bandaríkjunum þar sem lyfið er talið hættulegt. Að auki eru aukaverkanir á borð við ógleði og verki víðs vegar um líkamann eru frekar algengar.

Þrátt fyrir það virðist lyfið geta haft áhrif á einhverfu. Fimm af þátttakendunum í rannsókn Roberts Naviaux fengu suramin meðan aðrir fimm gengu lyfleysu. Allir fimm drengirnir sem fengu suramin sýndu betri félagslega hæfni og bættan málþroska, eftir meðferð, við skoðun hjá sérfræðingum. Mat foreldra á börnum sínum gáfu sömu niðurstöður. Þessar framfarir var ekki að sjá meðal þeirra drengja sem fengu lyfleysuna. Rétt er að taka fram að hvorki foreldrar né sérfræðingar sem mátu einkenni barnanna höfðu vitneskju um hvers konar lyf drengirnir fengu.

Þessar niðurstöður gefa sannarlega vísbendingar um að einhverfa gæti verið afleiðing einhvers konar efnaskiptavanda og að sá vandi sé meðhöndlanlegur. Hins vegar verðum við að hafa þann fyrirvara á að rannsóknin var einungis gerð á 10 drengjum, sem eru rosalega fáir þátttakendur og tilviljanir gætu spilað hér lykilhlutverk.

Þess vegna eru næstu skref rannsóknarhópsins að skoða lyfið í mun stærri hópi og fá úr því skorið hvort lyfið er raunverulega að hafa áhrif, hvort aukaverkanir lyfsins séu ásættanleg og í hvaða skömmtum er hægt að nota lyfið því of stórir skammtar geta hreinlega verið hættulegir. Það verður því áhugavert að fylgjast með framgangi þessara mála.