Mynd: The University of Sydney
Mynd: The University of Sydney

Þó líkaminn hafi ótrúlega hæfileika til að gera við sjálfan sig getur komið fyrir að hann þurfi á hjálp að halda. Viðgerðarferlar í líkamanum geta verið á smáum sem stórum skölum, sem dæmi hafa frumur ákveðna viðgerðarferða til að gera við stökkbreytingar í erfðaefninu en svo hafa líffærin okkar líka ferla til að gera við sár sem geta myndast.

Þegar sárin eru stór eða koma sér fyrir í vef sem er á mikilli hreyfingu getur verið erfitt fyrir líffærin að koma þessum ferlum áleiðis, þá þarf stundum að hjálpa til. Við skurðaðgerðir eða annað slíkt hefur oft verið notast við aðferðir eins og að hefta eða sauma saman sár til að halda þeim lokuðum meðan viðgerðarferlarnir vinna sína vinnu við að líma vefinn saman á ný.

Nýlega birti rannsóknarhópur frá Háskólanum í Sydney niðurstöður rannsóknar þar sem verið er að skoða nýjan valkost til að festa sár saman meðan þeim er gefið tækifæri til að jafna sig. Efnið sem um ræðir heitir methacryloyl-substituted tropoelastin og er kallað MeTro. Telur vísindahópurinn að notkun þess muni sérstaklega koma að gagni þegar verið er að gera við vefi eins og hjarta eða lungu sem alltaf þurfa að hafa ákveðinn teygjanleika.

Aðaluppistaðan í MeTro er Tropoelastin en það er prótín sem finnst í líkömum okkar allra og gegnir því hlutverki að gefa líffærum og vefjum teygjanleika. Efnið er að finna utan frumna í því sem heitir utanfrumuefni eða extracellular matrix. Tropoelastin binst sjálfu sér, öðrum prótínum eða jafnvel frumum og myndar nokkurs konar keðjubyggingu sem gefur vefnum teygjanleika þegar á þarf að halda.

Í MeTro eru einnig efni sem gerir blönduna ljósnæma, það er gert svo hægt sé að nota útfjólubláageisla til að lýsa á sárið þegar gelið er komið í. Við slíka meðhöndlun myndast krosstengsl milli Tropoelastin prótínanna sem tryggir það að gelið haldist saman.

Að auki er að finna niðurbrotsensím í MeTro-gelinu. Ensímin gegna því hlutverki að brjóta gelið niður þannig að þegar það hefur lokið hlutverki sínu og vefurinn hefur náð að líma sig saman á ný er gelið brotið niður. Gelið brotnar alveg niður án þess að skilja eftir sig nokkuð sem getur verið hættulegt fyrir líkamann.

Enn sem komið er hafa einungis verið gerðar tilraunir með MeTro í dýrum. Þær tilraunir hafa þó skilað góðum árangri og hefur gelið verið notað á mjög krefjandi vefi eins og hjartavef. Næsta skref er svo auðvitað að prófa gelið í mannavef og athuga hvort svipaðar niðurstöður fáist við það.

Til gamans má sjá í myndbandinu hér að neðan dans sem sýnir hegðun Tropoelastín prótínsins. Dansinn var hluti af keppninni Dance your PhD árið 2015 og var hann framlag Pearl Lee, sem þá lagði stund á doktorsnám við Háskólann í Sydney.