y-chromosome

Í spendýrum er kvenkyn sjálfgefið val í fósturþroska nema til komi tjáning á geni sem kallast Sry sem er einungis að finna á Y litningi. Sé enginn Y litningur til staðar, verður engin tjáning á Sry og barnið fæðist sem stúlka.

Áður en Y litningurinn varð til, einhvers staðar ansi langt aftur í þróunarsögunni var það genið Dmrt1 sem réði kyni ungviðisins. Þetta gen er staðsett á litningi 9 í manninum og gegnir nú öðru hlutverki við þroskun kynfæra, meðan Sry setur kynákvörðunarferlið í gang. En kynákvörðunarhlutverk Dmrt1 er augljóst í hryggdýrum sem eru þróunarfræðilega mun eldri en spendýr, t.d. í skriðdýrum og nú einnig í músum sem vísindahópur í háskólanum í Queensland vann með.

Vísindahópurinn birti á dögunum niðurstöður sínar í tímaritinu Development. Þar sýnir hópurinn fram á að yfirtjáning á geninu leiðir til þroskunar karlkyns líffæra í músum sem ekki hafa Y litning. Þessi ferill er samsvarandi kynákvörðunarferli í skriðdýrum, froskum og fuglum sem dæmi, þar sem það er magn gensins sem ræður kynákvörðun, en ekki kynlitningar eins og í spendýrum.

En hvers vegna er mikilvægt að skoða þetta? Það er í fyrsta lagi áhugavert að sjá að genið getur enn sinnt sínu hlutverki en að auki binda vísindamenn vonir við að hægt verið að nota þessar upplýsingar til að hafa áhrif á kynjahlutfall lífvera við til dæmis landbúnar og við björgun dýra í útrýmingarhættu.