Saedi

Prótínið TAF4b gegnir lykilhlutverki við myndun sæðisfruma. Með því að skilgreina virkni prótínsins í þessu ferli opnast möguleikar á því að örva sæðisfrumumyndun hjá körlum sem glíma við ófrjósemi vegna stökkbreytinga í geninu sem kóðar fyrir TAF4b prótíninu.

TAF4b er umritunarþáttur en umritunarþættir eru prótín sem taka þátt í að stýra tjáningu gena. Áhrif stökkbreytinga í geninu voru prófuð í músum. Fyrri rannsóknir höfðu sýnt fram á að kvenkyns mýs sem voru með óvirkt TAF4b voru ófrjóar og eggjastokkar þeirra eltust fyrr en í músum sem voru með eðlilegt TAF4b. Sambærilegt gen finnst í mönnum og vísbendingar eru um að þar gegni það sambærilegu hlutverki. Í grein sem birtist í Journal of Medical Genetics er stökkbreyting í geninu tengd við lága sæðisfrumutölu í körlum.

Strax í fósturþroska hefst þroskun á kynfrumum og kynfrumumyndnandi vefjum. Sæðismyndandi vefur geymir mikið af vefjasérhæfðum stofnfrumum, sæðisstofnfrumum, sem þroskast svo og verða sæðisfrumur. Í músafóstrum sem voru með óvirkt TAF4b fóru færri frumur að mynda sæðismyndandi vef og sæðisstofnfrumurnar voru einnig færri. Eftir fæðingu voru mýsnar frjóar í 4 mánuði, en undir venjulegum kringumstæðum eru mýs frjóar í 2 ár. Þetta bendir til þess að TAF4b er líka nauðsynlegt til að viðhalda sæðisstofnfrumunum og áframhaldandi myndun sæðis.

Það voru vísindamennirnir Lindsay Lovasco og Eric Gustafson sem fóru fyrir rannsókninni en hópurinn er staðsettur í Brown University í Providence, Rhode Island í Bandaríkjunum. Stofnunin birti fréttatilkynningu um málið sem hægt er að nálgast hér.