math-talks-404x256

Við höfum öll heyrt sögur af fólki eins og Daniel Tammet sem lærði íslensku á örfáum dögum og man 22,514 aukastafi af π. Er kannski þunn lína milli þess að vera einhverfur og snillingur? Ný rannsókn í erfðafræði svarar spurningum sem þessari.

Einstaklingar sem eru með einhverfu eiga oft erfitt með að tjá skoðanir og fylgja ekki alltaf óskrifuðum reglum um félagslegt háttarlag. Um 70% þeirra sem eru á einhverfurófi eru einnig með skerta greind. Inná milli eru svo einstaklingar sem sýna mun meiri hæfni við að leysa þrautir en einstaklingar sem við teljum fullkomlega heilbrigða. Ný rannsókn bendir nú til að genabreytingar sem hafa verið tengdar einhverfu gætu einnig tengst snilligáfum.

Rannsóknir sem miða að því að skilgreina breytingar á erfðaefninu sem hægt er að tengja við aukna áhættu á hinum ýmsu kvillum hafa sýnt fram á að ákveðin svæði í erfðamenginu tengjast aukinni áhættu á einhverfu. Þessi svæði eru nokkuð mörg og hafa að því er virðist ekki afgerandi áhrif á einhverfu.

Rannsókn sem fór fram við háskólann í Edinborg sýndi að breyting í ákveðnu geni sem tengd hefur verið við einhverfu er einnig til staðar í einstaklingum með hærri greindarvísitölu og betra minni.

Rannsóknin var gerð á tilviljanakenndu úrtaki af Skotum og var fólk þá beðið um að leysa þrautir til að meta greind þeirra og minni. Síðan voru tiltekin svæði í erfðaefni þáttakanda greind og fannst þá ofangreind tenging. Hvað nákvæmlega veldur einhverfu er enn óútskýrt og þessi rannsókn styður þá kenningu að þar spila margir þættir inní. En með meiri þekkingu á starfsemi heilans komumst við alltaf aðeins nær því að skilja hvað það er sem veldur því að eitthvað fer úrskeiðis.