Mynd: The Guardian
Mynd: The Guardian

Allar lífverur hafa ákveðinn líftíma og maðurinn er þar alls ekki undanskilinn. Öldrun hefur verið til frá upphafi lífs, það er sennilega þess vegna sem höfum aldrei hitt neinn sem man eftir risaeðlunum. En hvað er það sem stjórnar því að við förum öll í gegnum sömu æviskeiðin?

Til að skoða hvaða gen hafa áhrif á aldur er rökrétt að rannsaka hvernig tjáning gena breytist með aldrinum. Ef fleiri en ein lífvera er skoðuð er hægt að bera saman hvaða gen breyta tjáningu sinni á mismunandi skeiðum ævi dýranna. Ef genin hafa raunverulega áhrif á aldur breytist tjáning þeirra á sama hátt í öllum lífverum á sömu æviskeiðum. Þegar vísindahópur við ETH Zurich skoðaði tjáningu gena í C. elegans, zebra fisk og músum kom í ljós að 30 gen, sem finnast í öllum þremur lífverunum sýna sams konar tjáningamunstur á mismunandi æviskeiðum lífveranna.

Til að sannreyna að þessi gen hafa áhrif á öldrun var virkni genanna prófuð með því að yfirtjá gen þar sem tjáning minnkaði eða bæla tjáningu gena sem urðu meira tjáð með aldri. Uppúr stóðu u.þ.b. 12 gen sem leiddu til lengri lifunar þegar tjáningarmynstri þeirra var breytt. Þessi 12 gen eru einnig til staðar í manninum, og að öllum líkindum í öllum heilkjarna lífverum.

Eitt gen stóð uppúr í þessari rannsókn sem heppilegt markgen fyrir yngingalyf, ef svo má segja. Genið heitir bcat-1 og þegar genið er tjáð verður til ensím sem hefur það hlutverk að klippa niður amínósýrur á borð við leucín, isoleucín og valín, þ.e. greinóttar amínósýrur. Með aldrinum eykst tjáning á þessu geni. Sé tjáningin hins vegar hindruð verður minna niðurbrot á þessum greinóttu amínósýrum og það leiðir til lengri lifunar. Það sem er kannski enn merkilegri uppgötvun er að bæling á tjáningu bcat-1 leiðir til betri heilsu.

Næsta skref vísindahópsins er að sannreyna áhrif bcat-1 í mönnum og athuga hvort tjáning þess sé tengd við þekkta heilsufarsþætti. Reynist svo vera gæti hér mögulega orðið til lausnin að lengra og betra lífi fyrir mannfólkið.