simpansi_madur

Munurinn á erfðamengi manns og simpansa er ekki svo ýkja mikill, en munurinn á tegundunum er samt augljós. Einn helsti munurinn á manni og dýrum er heilastarfsemin og nú gætum við bráðum skilið hvers vegna.

Þó DNA raðirnar breytist ekki mikið milli dýrategunda þá verða oft stórkostlegat breytingar á tjáningu genanna. Það sem stjórnar því eru DNA raðir kallaðar stýrlar, sem geta bæði aukið tjáningu og minnkað hana. Margar rannsóknir þar sem borin eru saman erfðamengi manns og simpansa hafa sýnt fram á þennan mun, en nú hafa vísindamenn í Duke University Medical School fundið röð sem veldur stækkun heilans í fósturþroska.

Röðin er kölluð HARE5 (human-accelerated-regulatory-enhancers-5) og er staðsett nálægt Frizzled8, geni sem er þekkt fyrir hlutverk sitt í heilaþroskun og hafa gallar í því verið tengdir við taugasjúkdóma. HARE5 úr mönnum er tjáð yfir lengra tímabil og í meira magni í fósturþroska heldur en HARE5 úr simpönsum. Þetta sá hópur Debru Silver þegar genin voru sett inní músafóstur.

HARE5 úr mönnum og simpönsum eru mjög líkar raðir, en milli þeirra eru 16 basabreytingar. Munurinn á þeim veldur samt miklu breytingum í heilanum, en músafóstur með manna HARE5 voru með 12% stærri heila en músafóstur með simpansa HARE5.

Þetta er þó aðeins einn biti í púslið og enn er af nógu að taka í þessum fræðum. Hópurinn mun vonandi halda áfram að finna fleiri HARE raðir og skýra betur hvernig heilinn þroskast og í leiðinni skýra betur hvað það er sem veldur taugasjúkdómum.

Hér má lesa meira um rannsóknina.