rainbow

Það eru til mörg dýr í heiminum sem skortir það stórkostlega verfæri sem augun eru. Þessi dýr hafa þó mörg hver einhvers konar skynjun til að greina á milli myrkurs og birtu. Nú hefur einn slíkur skynjari verið skilgreindur í orminum C. elegans, sem er mikið notaður í rannsóknum en ormurinn hefur engin sjónfæri. Það skrítna við þennan skynjara er að hann tilheyrir hópi prótína sem skynja bragð.

Viðtakinn örvast beint við ljósið en ekki vegna afurðar sem verður til þegar ljósgeislinn skín á lífveruna, það sama gildir um aðra ljósnema eins og t.d. í augum okkar mannanna. Það verður að segjast að það vekur furðu að prótín sem tilheyrir flokki bragðlauka skynji ljósgeisla og því má velta fyrir sér hvort boðleið ljósnemans sé svipuð þeirri sem bragðnemarnir setja af stað. Þess vegna veltir rannsóknarhópurinn upp þeirri spurningu hvort að ormarnir finni bragðið af ljósinu.

Bragðlauka-tenging ljósnemans er þó ekki það eina sem vekur athygli vísindamanna á honum, en neminn örvast mjög sterkt bæði við UV-A og UV-B geisla. Þetta eru þeir geislar sem valda okkur mestum skaða og eru líklegasti til að valda stökkbreytingum í húðfrumum og leiða þannig til krabbameins. Vísindahópurinn bendir því á að mögulega væri hægt að nota prótínið í sólarvarnir. Það verður áhugavert að fylgjast með hvort við munum í framtíðinni kaupa krem með prótíni einangrað úr ormum til að verja húð okkar.