Mynd: Food Please
Mynd: Food Please

Það skiptir líkamann okkar miklu máli að við pössum uppá að borða hollan mat. Flestir tengja mikla óhollustu við holdafar, en það sem skiptir líkamann ekki síður máli er að fá nægilega mikið af næringarefnum til að sinna öllum þeim efnaskiptum sem hann þarf að framkvæma á hverjum degi. Það gæti þess vegna skipt heilbrigði mannkynsins heilmiklu máli ef við gætum einhvern veginn fengið líkamann til að minnka löngun okkar í óhollustu.

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem hefur verið unnið við Imperial College í London og University of Glasgow gæti sá draumur brátt ræst. Í rannsókninni var verið að prófa áhrif sameindarinnar propionate á matarlyst. Þessi sameind er framleidd í ákveðnum bakteríustofnum sem oft finnast í þarmaflórunni en í rannsókninni er propionate örlítið breytt, tengt við aðra sameind, inulin og heitir þá inulin-propionate ester.

Lítill hópur sjálfboðaliða var látinn neyta inulin-propionate ester í mjólkurhristingi. Eftir að hafa neytt hristingsins höfðu sjálfboðaliðarnir minni löngun í óhollan mat og að auki borðuðu minni skammta en samanburðarhópur sem fékk eingöngu inulin í mjólkurhristingi. Sjálfboðaliðahópurinn var mjög lítill en engu að síður virtust áhrifin vera marktæk samanborið við samanburðarhópinn.

Þar sem propionate er einnig að finna í bakteríum sem oft finnast í þarmaflóru fólks gæti þetta að hluta til útskýrt hvers vegna fólk virðist eiga miserfitt með að halda kílóatölunni í skefjum. Næstu skref er að yfirfæra þessa rannsókn á stærri hóp þar sem hægt verður að skilgreina hvort virknin er raunveruleg og að hvort einhverjar hugsanlega aukaverkanir geti komið til við notkun lyfsins.

Í myndbandinu hér fyrir neðan er farið nánar í rannsóknina sem birtist í The American Journal of Clinical Nutrition fyrsta dag júlímánaðar.