sugar-bowl_3046243b

Offita og tengdir sjúkdómar eru stór heilsufarsógn í vestrænum samfélögum. Sjúkdómar á borð við sykurfíkn og áráttuofát hafa verið skilgreindir sem fíknisjúkdómar. Það þýðir að vellíðanin sem fylgir því að borða leiðir til þess að fólk getur orðið háð því að fá meira, ekki einungis til að fá nauðsynlega næringu heldur til að upplifa vellíðanina sem fylgir. Ólíkt öðrum fíknisjúkdómum er ekki í boði að fjarlæga efnið sem leiðir til vellíðan, því matur er lífsnauðsynlegur.

Kay Tye ásamt hópi vísindamanna við MIT í Bandaríkjunum hefur tekist að skilgreina svæðið í heilanum sem stjórnar sykurfíkninni og áráttuofáti. Kay Tye og hópurinn hennar leituðust við að finna lausn sem hefði ekki áhrif á eðlilega upptöku á næringu. Þau einbeittu sér að svæði í heila músa sem liggur hliðlægt á undirstúku (lateral hypothalamus). Við rannsóknina var notast við erfðabreyttar mýs með taugafrumur sem tjá sérstakt prótín sem nemur ljós. Með mismunandi ljósbylgjum er því hægt að kveikja og slökkva á virkni taugafrumnanna.

Þegar svæðið var virkjað með gulu ljósi virtust mýsnar ekki kunna sér hóf og átu ef matur var til staðar án þess að hafa þörf fyrir hann. Þær leituðust einnig frekar við að sækja sér sykur í sérstakt sykurhólf í búrinu. Þetta lögðu mýsnar á sig til að fá sykurverðlaunin sín þrátt fyrir að þær fengju rafstraum í fæturnar þegar þær nálguðust sykurinn. Hins vegar átti hið gagnstæða við þegar svæðið var ekki virkt, þegar blátt ljós var notað. Þetta styður niðurstöður hóps sem vann að svipuðum rannsóknum í háskóla Norður Karolínu, undir stjórn Garret Stuber.

Í þróunarfræðilegu samhengi er eðlilegt að dýr, eins og menn, noti tækifærið þegar nóg er til af fæðu til að byggja upp orkubúið og borða mikið af orkuríkum mat. En í dag þegar orkuríkur matur er ekki lengur árstíðabundinn lúxus þarf líkaminn að aðlagast nýjum aðstæðum.

Hér má sjá fréttatilkynningu varðandi málið.