Eitt þekktasta æxlisbæligenið í erfðamengi mannsins er p53. Prótín sem virðst gegna hlutverki við allar vörður frumurhringsins. Prótínið hefur stundum verið kallað varðhundur erfðaefnisins, því það gegnir veigamiklu hlutverki við viðhald litningastöðugleika.

Þess helsta hlutverk sem æxlisbæligen er þó kannski að bremsa frumuhringinn af þar til fruman hefur lokið öllum mikilvægum skrefum hvers frumufasa. p53 finnst stökkbreytt í nær helmingi allra krabbameina, en ákveðin krabbamein eru þó þar undanskilin og má þá sérstaklega nefna krabbamein í lifur.

Rannsóknarhópur sem dreifist um bæði Kína og Bandaríkin hefur nú birt grein í nýjasta tölublaði Cancer Cell, þar sem þau rannsaka hlutverk p53 í lifrarkrabbameinsfrumulínum.

Í rannsókn sinni komast þau að því að heilbrigt eintak af p53 er nauðsynlegt krabbameinsfrumunum til að tjá prótín sem kallast PUMA (p53 upregulated modulator of apoptosis). PUMA virkar svo sem hindri á upptöku pýruvats inní hvatberana.

Í stuttu máli þýðir þetta að þegar of mikið PUMA er til staðar þá klárar fruman ekki niðurbrot næringarefna í gegnum sítrónusýruhringinn. Frumurnar notast nær eingöngu við glýkólýsu, sem er einkenni frumna á borð við krabbameinsfrumur sem gefa sér ekki tíma til að fullnýta orkuna úr næringareiningunum.

Þegar rannsóknarhópurinn skoðaði svo tjáningu á PUMA í sjúklingum með lifrarkrabbamein kom í ljós að aukið magn PUMA sýndi fylgni við verri 5 ára lifun.

Þessar niðurstöður undirstrika hversu misjöfn hlutverk prótín hafa þegar þau eru skoðuð í mismunandi samhengi, t.d. í mismunandi vefjum. p53 hefur því nánast fengið öfugt hlutverk í lifrarkrabbameini samanborið við hlutverk þess í flestum öðrum krabbameinum, þar sem heilbrigt eintak af prótíninu er nauðsynlegt til að stuðla að stöðugleika innan frumunnar.