Mynd: Heather England
Mynd: Heather England

ADHD er skammstöfun fyrir Attention Deficit Hyperactivity Disorder sem útleggst á íslensku athyglisbrestur og ofvirkni. Að meðaltali eru um 5-10% barna í þýðinu með ADHD, það þýðir að þau eiga í erfiðleikum með að vera kyrr, einbeita sér og eru einnig hvatvísari en jafnaldrar þeirra svo dæmi séu nefnd. Orsakir ADHD eru ekki enn að fullu þekktar en ný dönsk rannsókn bendir til þess að D-vítamín spili þar einhverja rullu.

Í rannsókninni var fylgst með um 1200 börnum upp að tveggja og hálfs árs aldri. Á meðgöngu var fylgst með D-vítamín inntöku mæðra þeirra og styrkur þess var mældur í naflastrengsblóði við fæðingu barnanna. Við tveggja og hálfs árs aldurinn voru mæðurnar síðan beðnar um að svara spurningalista sem notaður er til frumgreiningar á ADHD.

Í ljós kom að börn greindust síður með ADHD ef D-vítamín í naflastrengsblóð náði 25 mmol/L eða meira. Tengslin milli D-vítamín magns og greiningartíðni ADHD voru mjög skýr og benda til þess að vítamínið sé ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegt fyrir þroskun taugakerfis fóstra og barna.

D-vítamín er ekki auðfáanlegt úr fæðu en það finnst helst í feitum fiski og olíum eins og lýsi. Miðað við þessar niðurstöður er því mikilvægt fyrir verðandi mæður að passa uppá fæðuval sitt og taka auka D-vítamín á meðgöngu.