Mynd: Sawada Coffee
Mynd: Sawada Coffee

Á álagstímum getur verið freistandi að sofa minna og drekka hreinlega kaffi, eða aðra drykki sem innihalda koffín, til að bæta upp misstan svefn. Þetta er þó síður en svo besta lausnin samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem kynntar verða á ráðstefnunni SLEEP í vikunni.

Til þess að kanna áhrif koffíns á einstaklinga sem fengu ekki nægilega mikinn svefn var 48 sjálfboðaliðum aðeins leyft að sofa í fimm klukkustundir í fimm nætur. Á þessum tíma fengu 24 sjálfboðaliðanna 200 milligrömm af koffíni klukkan 8 að morgni og 12 á hádegi. Hinir 24 sjálfboðaliðarnir fengur lyfleysu á sömu tímum.

Rannsóknarhópurinn kannaði síðan hversu syfjaðir sjálfboðaliðarnir voru út frá tveimur prófum sem nefnast The Stanford Sleepiness Scale og The Maintenance of Wakefulness Test.

Í ljós kom að þeir sjálfboðaliðar sem fengur koffínið voru minna syfjaðir og hæfari til að leysa verkefni fyrstu tvo dagana en samanburðarhópurinn. Þau áhrif vörðu þó ekki lengi því á þriðja degi var enginn mælanlegur munur á hópunum tveimur. Að auki mældist koffín hópurinn með betri lund í upphafi en eftir þriðju nóttina var hópurinn meira pirraður en samanburðarhópurinn.

Rannsóknin sýnir enn og aftur fram á miklvægi svefns og að þrátt fyrir ágæti kaffis kemur ekkert í stað góðs nætursvefns.