Rauðvín er dásamlegur drykkur sem unnin er úr vínberjum. Hann þykir ekki góður í óhófi eða fyrir börn vegna þeirra áhrifa sem hann veldur sökum þess áfengismagns sem drykkurinn inniheldur.

Fjölmargir vefmiðlar, íslenskir sem erlendir, birtu á dögunum niðurstöður greinar sem var birt í International Journal of Obesity, í mars á þessu ári. Það sem hefur vakið athygli við niðurstöður greinarinnar er að vísbendingar eru um að efni sem finnst að öllum líkindum í rauðvíni getur aukið myndun á búnum fituvef, sem er virkari fituvefur en sá hvíti á þann hátt að hann nýtir sjálfur fituna sem safnast í líkamann.

Til að skoða þetta notaðist prófessor Du og hópur hans við mýs sem fengu annars vegar venjulega fæðu og hins vegar fæðu sem í var bætt efni sem heitir resveratrol. Resveratrol er polyphenol efni, en slík efni finnast í þó nokkru magni í ávöxtum og berjum og fyrri rannsóknir hafa sýnt að inntaka þeirra geti komið í veg fyrir offitu.

Mýsnar sem átu resveratrol bætta fæðu fitnuðu síður en mýsnar sem fengu venjulega fæðu. Til að skoða hver áhrif resveratrol voru skoðaði hópurinn fituvef músanna meðal annars með tilliti til prótína sem finnast í brúnni fitu. Við þessa athugun kom í ljós að brún fita virtist myndast í músahópnum sem fékk resveratrol, frekar en í músahópnum sem ekki fékk resveratrol.

Sem sagt, rauðvín er grennandi, eða hvað? Mögulega væri betra að fá resveratrol og önnur polyphenol efni beint úr ávöxtum. Epli, hindber, bláber og vínber eru til dæmis stútfull af þessum efnum og samkvæmt prófessor Du er resveratrol ill-leysanlegt efni og því mikil hætta á að það tapist úr rauðvíninu einhver staðar í bruggferlinu. Þar að auki þurftu mýsnar 28 grömm af resveratrol á dag til að áhrifin kæmu fram, en það getur verið ansi mikið af rauðvíni fyrir fullvaxna manneskju. Mikið rauðvín á dag getur líka haft áhrif á daglegt líf þess sem neytir og sljóleikinn sem fylgir því að drekka of mikið rauðvín getur jafnvel leitt til lélegra matarræðis.

Meðfylgjandi er svo myndband frá teyminu í ASAPScience sem skýra þessi stórskrítnu aukaáhrif sem rauðvínið hefur, að öllum líkindum löngu áður en það fer að hafa áhrif á vaxtarlag.