2BACCCCF00000578-3211479-image-a-1_1440592564669

Langflest höfum við getuna til að mynda myndir í huganum – það er til dæmis auðvelt fyrir flesta að ímynda sér að þeir gangi á fallegri strönd í glampandi sólskini. Það er samt til það fólk sem hefur ekki þessa getu. Þetta taugafræðilega ástand kallast á ensku aphantasia og var lýst í af vísindamönnum í fyrsta skipti á þessu ári. Eftir því sem Hvatinn kemst næst er enn ekki til íslenskt orð yfir ástandið.

Það sem einkennir einstaklinga með aphantasia er eins og áður sagði að það hreinlega getur ekki skapað myndir í huganum. Þetta þýðir að það getur til dæmis ekki talið kindur í huganum og á erfitt með að þekkja andlit, enda hefur það enga myndræna minningu til að styðjast við.

Það var Adam Zeman, prófessor í taugafræði, ásamt samstarfsfólki sínu við Exeter háskóla sem skilgreindi ástandið á þessu ári í rannsókn sem birt var í tímaritinu Cortex. Næst vill Zeman bera saman líf og reynslu þeirra sem hafa aphantasia og hyperphantasia en hyperphantasia er þveröfugt ástand þar sem fólk á sérstaklega auðvelt með að sjá hluti fyrir sér í huganum.

Zeman segir fólk vera almennt ánægt með skilgreininguna. Einstaklingar hafi jafnvel haft samband við hann til að láta vita af léttinum sem fylgdi því að hafa loks fengið nafn á ástandið, enda hafi það átt erfitt með að útskýra það fyrir fólki í gegnum tíðina.

Heldur þú að þú gætir verið með aphantasia? Taktu prófið, sem þróað var við Exeter háskóla, á vefsíðu BBC hér.