o-DEPRESSION-facebook

Öll höfum við upplifað að vera veik á einhverjum tímapunkti og þekkjum vanlíðanina sem líkamlegum veikindum fylgir. Það að hanga heima veikur getur verið hræðilega þreytandi og við verðum oft leið, þreytt og hreinlega nennum engu. Þessi einkenni eru einmitt svipuð þeim sem fólk sem glímir við þunglyndi finnur fyrir og telja sífellt fleiri vísindamenn að það sé ekki tilviljun.

Þunglyndi er algengur sjúkdómur en þrátt fyrir það fylgir honum enn viss skömm. Sem betur fer er viðhorf samfélagsins gagnvart þunglyndi að breytast og nú telja sumir vísindamenn að orsök hans gæti verið önnur en áður var talið. Nýjar rannsóknir á orsökum þunglyndis benda til þess að sjúkdómurinn gæti stafað af ofnæmisviðbrögðum við bólgusvari líkamans og því sé um líkamleg veikindi að ræða fremur en andleg.

Eftirfarandi þættir hafa meðal annars verið nefndir sem rök fyrir því að bólga í líkamanum gæti valdið þunglyndi:

  • Rannsóknir hafa sýnt fram á að í þunglyndum einstaklingum snareykst bólga í líkamanum. Ekki nóg með það heldur er hægt að kalla fram tímabundið þunglyndi í fólki með því að gefa þeim bóluefni sem eykur bólgur.
  • Algengara að fólk sem þjáist af bólgusjúkdómum, til dæmis liðagigt, glími við þunglyndi en heilbrigðir einstaklingar.
  • Krabbameinssjúklingar sem fá lyfið interferon alpha verða oft þunglyndir en lyfið hvetur bólgumyndun í líkamanum.
  • Lífstíll nútímamannsins einkennist í mörgum tilfellum af miklum transfitum og sykri sem einmitt hvetja til bólgumyndunar. Aftur á móti vinna ávextir, grænmeti og fiskiolíur á móti bólgumyndun.
  • Streita er annar þáttur sem fjölmargir glíma við í hröðum heimi nútímans og er streita þekkt fyrir það að auka bólgumyndun.

Það er því mat æ fleiri vísindamanna að lífstíll okkar hvetji hreinlega til bólgumyndunar í líkamanum og getur verið að þar sé orsök þunglyndis fundin.

Enn er verið að rannsaka tengsl þunglyndis og bólgumyndunar og má til dæmis nefna að í nýlegum klínískum rannsóknum kom í ljós að inntaka bólgueyðandi lyfja og þunglyndislyfja dró úr einkennum þunglyndis og jók hlutfall þeirra sjúklinga sem svöruðu meðferðinni.

Að lokum skal tekið fram að bólgumyndun er mikilvægur hluti af líkamsstarfsemi okkar og er alls ekki ráðlegt að reyna að koma alveg í veg fyrir hana. Spennandi verður að fylgjast með framförum í rannsóknum á þessu sviði enda gætu betri meðferðarúrræði við þunglyndi gjörbreytt lífi þeirra fjölmörgu einstaklinga sem þjást af sjúkdómnum.

Heimild: The Guardian