pomegranate_03_300dpi

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem unnin var við Technion-Israel Institute of Technology er blanda af granateplum og döðlum það besta sem hægt er að fá til að koma í veg fyrir æðakölkun, þ.e. að fita og kólesteról safnist fyrir inní slagæðum.

Það sem gerist við æðakölkun er að kólesteról oxast inní æðunum og sest í æðavegginn, svo hann þrengist. Til að vinna gegn oxuninni þarf svokölluð andoxunarefni. Polyphenol andoxunarefni eru þekkt í granateplum en að auki finnst phenolic sýrur í döðlum sem einnig er andoxunarefni. Efnin hafa fyrir löngu verið skilgreind og andoxunarvirkni þeirra þekkt, þess vegna ákvað Michael Aviram sem fer fyrir rannsókninni að skoða hvaða áhrif efnin hafa á æðaþelsfrumur í rækt og einnig á mýs.

Í ljós kom að best væri að blanda ávöxtunum saman, þó hvor í sínu lagi hefði jákvæð andoxandi áhrif á æðakölkun, voru samanlögð áhrifin mun meiri en hvor ávöxtur gerði út af fyrir sig.

Vísindahópurinn sem vann að þessari rannsókn mælir því með að drekka u.þ.b 120 ml af granateplasafa og borða með því 3 döðlur, helst með steininum ef það er hægt til að hafa sem mest áhrif gegn æðakölkun.

Þess ber þó að geta að enn á eftir að staðfesta rannsóknarniðurstöðurnar í óháðri rannsókn, eins og hefð er fyrir í vísindum. En þangað til kemur varla að sök að borða meira af ávöxtum eins og granateplum og döðlum.