Mynd: MIT News
Mynd: MIT News

Í dag getur verið langt og strangt ferli fyrir einhverf börn og foreldra þeirra að fá greiningu á ástandinu. Greiningin getur samt verið nauðsynleg til að hefja það starf í leikskólum og skólum sem til þarf svo að hjálpa megi einverfum einstaklingum að takast á við lífið. Nú gefa nýjar rannsóknir til kynna að bygging heila einhverfa sé frábrugðin heilum heilbrigðra einstaklinga og að þessi mismunur sé sjáanlegur í heilum tveggja ára barna.

Grein í Biological Psychiatry: Cognitive Neurosciences and Neuroimaging fjallar um slíka rannsókn. Í henni er heili 102 einstaklinga skannaður með segulómun (MRI). Eins og flestir vita er heilinn með mjög krumpað yfirborð, þó hann megi í fyrstu virðast tilviljanakenndur þá eru krumpurnar í þessu merka líffæri hárnámkvæmt staðsettar að auki er dýpt þeirra og lögun eins í flestum tilfellum.

Í þessari tilteknu rannsókn kom hins vegar í ljós að dældirnar á svokölluðum Broca svæði, sem staðsett er nálægt gagnaugunum eru dýpri hjá einstaklingum með einhverfu, samanborið við heilbrigða einstaklinga. Dældirnar sem myndast fyrst þegar heilinn er að þroskast eru yst á þessu svæði og síðan raðast heilinn í fellingum útfrá þeim. Heilinn heldur áfram að þroskast til allt að tveggja ára aldurs en þá og jafnvel fyrr, sést þessi munur á heilbrigðum heila og heila einhverfra.

Niðurstöður rannsóknarinnar opna ekki einungis á leiðir til að skilgreina einhverfu betur og finna þannig mögulega lækningu eða meðferð, heldur auðveldar þetta greiningu á ástandinu. Hingað til hefur einhverfa verið greind með því að prófa þroska barna eða með viðtölum við þau og foreldra. Eins og gefur að skilja er sú aðferð tímafrek og tekur oft mikið á. Með því að nota segulómun sem fyrsta skref við greiningu væri hægt að auðvelda ferlið heilmikið sem gefur einstaklingnum færi á að takast á við einhverfuna mun fyrr en nú er hægt. Það verður því gaman að fylgjast með hvort fleiri rannsóknir staðfesti þennan mun og hvort hægt verði að nota segulómun til greininga innan fárra ára.