urine-sample

Geðsjúkdómar eru líklega þeir sjúkdómar sem minnst hafa verið rannsakaðir í gegnum tíðina. Það hefur oft á tíðum reynst erfitt fyrir þá sem berjast við þessa sjúkdóma að fá greiningu meina sinna. Að auki virðist samfélagið ekki jafn vel í stakk búið að taka við fólki með geðkvilla eins og aðra líkamlega kvilla. Mikil umræða hefur farið fram undanfarið og mun vonandi halda áfram til að útrýma þeim fordómum sem fólk með geðraskanir mætir dagsdaglega.

Það er þó nokkuð algengt að fólk sem þjáist af geðhvarfasýki sé rangt greint með alvarlegt þunglyndi. Þó þunglyndi sé eitt af einkennum geðhvarfasýkinnar þá spilar þar meira inní, vegna þess að manneskja með geðhvarfasýki sveiflast oft jafnhátt upp eins og hún sveiflast niður í verstu köflunum. Milli þess sem manneskjan liggur í þunglyndi tekur hún svokölluð maníuköst, sem einkennast oft af yfirþyrmandi lífsgleði og sköpunarmætti, á þeim stundum spretta oft hugmyndir sem aldrei yrðu framkvæmdar nema vegna þess að manneskjan er í annarlegu ástandi.

Sé geðhvarfasýki meðhöndluð á sama hátt og þunglyndi, þ.e. með lyfjum sem örva endurupptöku serótóníns, næst ekki sami árangur og fæst með réttri meðhöndlun. Að auki geta aukaverkanir rangrar meðhöndlunar verið sjálfsvígshugsanir sem ekki þarf að taka fram að geta endað skelfilega.

Til að auðvelda læknum að greina á milli þessara tveggja sjúkdóma sem geta oft verið með mjög svipaða sýnd stóð vísindahópur við Chongqing University í Kína að rannsókn sem skilgreindi ákveðin efni í þvagi sem eru til staðar í mismunandi styrk í þessum tveimur sjúklingahópum.

Til að framkvæma rannsóknina voru þvagsýni úr 71 einstakling með geðhvarfasýki, 126 einstaklingum með alvarlegt þunglyndi og 126 heilbrigðum einstaklingum efnagreint. Í ljós kom að styrkur sex efna, (própíónat, format, 2,3-dihydroxýbútanó sýra, 2,4-dihydroxýpýrimidín, fenýlalanín og β-alanín), í þvaginu gátu spáð fyrir um hver greining einstaklinganna var.

Áður en hægt verður að nota mælingar ofantöldum efnum í þvagi sjúklinga til greininga þarf að endurtaka rannsóknina í stærri og fjölbreyttari hópi, en hópurinn sem notast var við í þessari rannsókn var allur til meðhöndlunar á sömu sjúkrastofnun. Það er þó alveg ljóst að ef hægt verður að koma slíkum prófum á koppinn sparast mikill tími og orka fyrir þá sjúklinga sem annars þyrftu að leggja uppí langt og strangt greiningaferli. Svo ekki sé talað um öll tilfellin þar sem hægt verður að koma í veg fyrir rangar greiningar.