Bólusetningar hafa lengi verið umdeildar. Helsta gagnrýnin á bóluefni er að þau innihalda oft efni sem talin eru hættuleg mönnum. Þetta er alveg rétt, mörg bóluefni innihalda efni sem ekki er talið æskilegt að við neytum, en þessi efni eru einnig hættuleg veirunum eða bakteríunum sem sýkja okkur og það er einmitt þess vegna sem þessi efni eru notuð við bólusetningar.

Efnin sem um ræðir eru alltaf notuð í mjög litlu magni og skammtastærðirnar eru engan vegin tilviljunum háðar. Áralangar tilraunir liggja að baki þeirri ákvörðun um í hvaða styrk efnin mega vera við bólusetningu. Mikilvægt er að efnin séu nægilega sterk til að veikla eða drepa sýkilinn en að sama skapi nægilega dauf til að hafa ekki áhrif á líkamann sem getur líka losað sig við þau á skömmum tíma.

Til að auka öryggi okkar þá eru bóluefni alltaf prófuð ítarlega áður en þau eru sett í umferð og strangt eftirlit er með bóluefnaframleiðslu á sama hátt og er með til dæmis lyfjaframleiðslu. Það virðist nefnilega vera algengur misskilningur að flestir vísindamenn sjái hag sinn í því að eitra fyrir almenningi en vísindamenn telja sig upp til hópa vera hluti af þessum sama almenningi.

Í myndbandinu hér að neðan sem MinuteEarth birti á dögunum er bólusetningaferlið útskýrt á einfaldan og þægilegan hátt.

Tengdar fréttir Hvað er bóluefni?