fast-food

Þegar við kaupum tilbúinn mat er honum pakkað inn. Það er mikilvægt til dæmis svo við getum flutt hann á milli staða. Matarumbúðir eru yfirleitt þannig gerðar að bleytan frá matnum getur ekki eyðilagt umbúðirnar, þannig er pappír sem matur er geymdur í til skemmri tíma yfirleitt húðaður með einhverjum efnum til að verja hann. En efnin sem eru notuð til að verja umbúðirnar geta stundum verið varasöm.

Rannsókn sem unnin var við University of Notre Dame leiddi í ljós að efni sem kallast per- og polyfluoroalkyl efni (PFAS) finnast í matarumbúðum sem fjöldi skyndibitakeðja notar. Fyrri rannsóknir hafa leitt í ljós að efnin geta flust úr umbúðunum og yfir í matinn sem leiðir til þess að neytandinn innbyrðir efnin.

PFAS eru þrávirk efni sem safnast upp í líkama okkar sé þeirra neytt og helmingurnartími þeirra getur verið mörg ár. Það er því ljóst að við viljum helst ekki að þessi efni komist í snertingu við matinn okkar. Rétt er þó að taka fram að flutningur efnanna yfir í matinn gerist ekki endilega mjög hratt en því lengur sem maturinn er nálægt efnunum því meiri líkur er á flutningi þeirra.

Þegar rannsakendur mældu PFAS efni í matarumbúðum höfðu þeir samband við matarkeðjurnar þar sem sýnin höfðu verið tekin. Aðeins tvær þeirra svöruðu en hvorugar könnuðust við að umbúðir þeirra innihéldu efnin. Kannski vita þeir sem selja matinn ekki hvers konar efni eru notuð til að húða umbúðirnar þeirra, en það er ljóst að betra utanumhald í þessum efnum er nauðsynlegt.