Mynd: University of Rochester
Mynd: University of Rochester

Tölvuleikjafíkn er vaxandi vandamál meðal nútíma unglinga. Það kemur lesendum kannski á óvart en tölvuleikjafíkn er algengari í Suður-Kóreu en í flestum öðrum löndum heims. Sem betur fer er fjöldi þeirra sem leita sér aðstoðar einnig vaxandi en þar sem vandamálið er stórt hafa vísindahópar þar í landi, sem og annars staðar, sett mikið púður í að skoða hvar vandinn liggur og hvaða áhrif hann hefur.

Í nýlegri rannsókn sem var samvinnuverkefni Chung-Ang Háskólans í Suður-Kóreu og Háskólans í Utah kemur í ljós að heilar ungmenna sem hafa leitað sér hjálpar við tölvuleikjafíkn hafa öðruvísi tengingar en heilar ungmenna sem ekki þjást af tölvuleikjafíkn.

Viðfangsefni rannsóknarinnar voru hátt í 200 ungmenni, þar af 106 sem voru haldin tölvuleikjafíkn. Allir þátttakendur voru settir í heilaskanna til að skoða hvaða svæði heilans voru virk þegar heilinn var í hvíld. Í ljós kom að heilar þeirra einstaklinga sem spiluðu tölvuleiki meira en góðu hófi gegnir höfðu ekki sömu virkni og heilar viðmiðunarhópsins. Þeir sem spila mikið af tölvuleikjum sýndu meiri virkni í svæðum sem tengja saman skynjun og viðbragð, það má því segja að þeir eigi auðveldara með að bregðast hratt við áreiti, eins og þegar ráðist er á leikmanninn í tölvuleiknum, eða þegar viðkomandi þarf að bregðast hratt við í umferðinni. Því miður eru þó ekki bara jákvæðir eiginleikar eins og þessir sem koma fram, þar sem einstaklingar sem spila tölvuleiki í miklu magni eiga líka erfiðara með að hafa stjórn á hvötum sínum. Það má því segja að þessir einstaklingar eru líklegri til að skjóta fyrst og spyrja svo.

Þessi rannsókn er líklega sú stærsta af sínu tagi sem framkvæmd hefur verið og gefur hún umhugsunarverðar vísbendingar um hvað gerist í huga einstaklinga sem glíma við tölvuleikjafíkn. Hins vegar er ekki hægt að dæma um það útfrá þessari rannsókn hvort svæðin örvist við að spila tölvuleiki eða hvort þeir sem eru með mikla virkni á þessum svæðum heilans eru líklegri til að glíma við tölvuleikjafíkn. Eins og svo oft áður er þetta spurning um það hvort kom á undan, hænan eða eggið?